„Nágrannar okkar hafa tekið þessu einstaklega vel“

„Það sem gerir þetta sérstakt er að allir tónleikarnir eru haldnir á bílaplaninu í Valsmýri 5 og allt tónlistarfólk gefur vinnu sína. Kostnaður er því lítill og aðgangur ókeypis,“ segir Arnar Guðmundsson, sem stendur nú fyrir tónleikaröðinni V-5 bílskúrspartý í Neskaupstað á þriðjudagskvöldum annað sumarið í röð.


Arnar segir hugmyndina hafa kviknað þegar hljómsveit hans, DDT skortdýraeitur, opnaði bílskúrinn fyrir gestum og gangandi á sínum æfingum.

„Eftir nokkrar vangaveltur varð niðurstaðan sú að fá fleira tónlistarfólk til að spila á þriðjudagskvöldum og með því bjóða ferðamönnum og öðrum að sjá brot af því menningarlífi sem við Norðfirðingar eigum. Það hefur svo þróast í það að hér hafa verið tónleikar alla þriðjudaga í júní og júlí,“ segir Arnar og bætir því við að Varði, bassaleikari DDT skordýraeiturs, hafi hannað lógó fyrir tónleikaröðina.

Aðsóknin fram úr björtustu vonum
„Síðasta sumar var hreint út sagt frábært, ég fékk fullt af hljómsveitum og einstaklingum til að koma og spila. Boðið var upp á allskonar tónlist, frá pönki til ljúfustu slagara. Þetta verður með svipuðu sniði í ár og jafnvel verður flóran enn fjölbreittari, svo sem jazz, pönk, popp, rokk, black metal og trúbbatónlist,“ segir Arnar.

Það sem af er sumri hafa sveitirnar DDT-skordýraeitur og Sárasótt spilað í Valsmýrinni. Á morgun mun sveitin Tilfest frá stíga á stokk en hún er skipuð heimafólki frá Norðfirði og spilar þekkta slagara frá ýmsum tímabilum.

„Aðsóknin hefur farið fram úr björtustu vonum, eða allt frá 40 til 135 manns hafa mætt á einstaka viðburði. Nágrannar okkar hafa tekið þessu einstaklega vel og þeim ber að þakka fyrir það. Einnig vil ég þakka fjölskyldu minni fyrir þvílíka þolinmæði og óeigingjarna vinnu. Að lokum þá vil ég hvetja alla til að kíkja í Valsmýri 5, á þriðjudögum í júní og júlí, stundvíslega kl. 20:00,“ segir Arnar.

 Ljósmynd: Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.