Myrti kennari á Eiðum Olaf Palme?

Leif Zeilich-Jensen, sem um tíma kenndi við Alþýðuskólann á Eiðum er meðal þeirra sem taldir eru mögulegir morðingjar sænska forsætisráðherrans Olafs Palme. Leif kenndi við skólann árið sem Plame var myrtur. Saga hans er rakinn í nýrri heimildamynd.

Sænska netfréttastöðin SwebbTV sýndi í fyrra heimildamynd um morðið á Palme. Þar er meðal annars rætt við eina af fyrrum sambýliskonum Leif, sem segir hann vera morðingjann. 

Í viðtalinu lýsir konan því að Leif hafi komið óvænt heim til hennar daginn eftir morðið. Hann hafi verið glaður í bragði, enda tilheyrt hópi sem taldi forsætisráðherrann vera leiða sænsku þjóðina til glötunar. Hann hafi lokað hurðinni á eftir sér, farið rakleiðis upp á háaloft og dvalið þar dágóða stund. Konan segir Leif hafa tilkynnt sér þegar hann kom aftur niður að enginn gæti farið upp á lofið næstu 100 árin. Leif lést árið 1992.

Rétt er að taka fram að SwebbTV hefur ekki á sér orð fyrir áreiðanleika og var meðal annars fjarlægð af YouTube í lok síðasta árs fyrir að dreifa bulli. Það breytir því þó ekki að eftirgrennslan þeirra hratt nýju heimildarmyndinni af stað.

Hefurðu fundið morðvopnið?

Blaðamaður SwebbTV fór að grafast fyrir um söguna og hafði meðal annars samband við Signe Zeilich-Jensen, sem var eitt af börnum Leifs. Spurning hans var einföld: „Hefurðu fundið morðvopnið?“ Signe átti skiljanlega erfitt með að svara spurningunni en varð forvitinn og fór að slá upp föður sínum í netleitarvélum. Þar rambaði hún inn á fjölda sænskra spjallborða þar sem faðir hennar var bendlaður við morðið.

Signe er fædd í Svíþjóð, en hefur búið lengi í Hollandi og er gift þekktum hollenskum heimildamyndagerðarmanni. Í síðustu viku var þar í landi sýnd í sjónvarpi myndin „Palme, pappa en ik“ eða „Ég, pabbi og Palme.“ Þar kannar Signe bæði ævi föður síns og möguleikinn á að hann sé morðinginn. Á þeirri vegferð fer hún meðal annars í Eiða.

Kom ungur til að læra íslensku

Leif Zeilich-Jensen var af dönsk-þýskum ættum en kom víða við á ævinni, bjó lengi á Grænlandi og skrifaði bækur og greinar um lífshætti þar. Hans er fyrst getið í íslenskum fjölmiðlum í febrúar árið 1958, er þá sagður Grænlendingur kominn til Íslands að læra íslensku og tekið fram að hann sé af íslenskum ættum, afi hans hafi verið Þorfinnur Hjaltason frá Akureyri.

Í myndinni ræðir Signe við samferðafólk föður síns, sem lýsa Leif sem fróðum manni, frábærum og frábærum sögumanni sem hafi haft áhuga á andlegum málefnum, en hann kenndi meðal annars jóga. Meðal viðmælenda er móðir Signe sem er ekki trúuð á söguna um að Leif hafi myrt Palme. „Hann gat ekki einu sinni drepið mig – og hann reyndi það þó tvisvar.“

Fagnaði morðinu

Til að fá botn í söguna ákveður Signe loks að fara til Íslands, en Leif kenndi þýsku og dönsku við Alþýðuskólann á Eiðum árið 1986, en Palme var myrtur að kvöldi 28. febrúar það ár. Þar er rætt við tvo fyrrum samkennara hans, Rúnar Sigþórsson og Örn Ragnarsson.

Þeir taka undir ýmsar frásagnir af Leif, um að hann hafi verið fróður og oft heillandi maður en taka fram að hann hafi haft einn stóran löst. Honum hafi þótt áfengi, einkum viskí, of gott. Litið hafi verið framhjá því þar sem sérlega erfitt hafi verið að fá þýsku og dönskukennara.

Þeir eru þó efins um að Leif sé morðinginn, til þess hafi hann þurft að komast ótrúlega hratt milli Eiða og Svíþjóðar en rifja upp að hann hafi glaðst þegar fréttir bárust af morðinu. Þannig hafi Leif tekið farið með lítinn sænskan fána, sem hann átti, inn á heimavistina þar sem hann söng og dansaði af kæti.

leif zeilich 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.