Myndin um Hans Jónatan frumsýnd í kvöld

Mynd sem gerð hefur verið um sögu Hans Jónatans, fyrsta blökkumannsins á Ísland, verður frumsýnd á Havarí í Berufirði í kvöld en Hans Jónatan bjó á Djúpavogi, starfaði við verslun og giftist dóttur hreppstjórans.


Kveikjan að myndinni var bók Gísla Pálssonar mannfræðings „Maðurinn sem stal sjálfum sér“ sem sagði sögu Hans Jónatans. Hann var sonur ambáttar á eyjunni St. Croix í Karíbahafi en fluttist með dönskum húsbónda sínum til Kaupmannahafnar áður en hann kom sér til Íslands.

Hann settist að á Djúpavogi árið 1802 og giftist Katrínu Antoníusdóttur. Afkomendur þeirra í dag erum um 1000 talsins. Hópi þeirra er fylgt eftir í ferð til St. Croix. Nokkrir þeirra koma fram í myndinni og segja frá því sem þeir vita um forföður sinn.

Þá er Gísla fylgt eftir í Kaupmannahöfn þar sem hann leitar skjala og tekin atriði á Djúpavogi en nokkur atriði úr sögu Hans Jónatans og Katrínar eru sviðsett.

Hjónin Valdimar Leifsson og Bryndís Kristjánsdóttir eru höfundar myndarinnar en Gísli fékk hugmyndina þegar hann skrifaði bókina og fékk þau í lið með sér. Í samvinnu við afkomendurna var komið upp styrktarsjóði Hans Jónatans sem fjármagnaði myndina.

Myndin er til talsett bæði á íslensku og ensku en stefnt er að því að selja hana til erlendra sjónvarpsstöðva. Hún verður innan tíðar sýnd í Reykjavík og RÚV hefur keypt sýningarréttinn.

Allir eru velkomnir í kvöld á meðan húsrúm leyfir. Húsið opnar klukkan 19:30 og hefst sýning myndarinnar klukkan 20:00.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.