Myndbönd af austfirskum perlum: Hvatinn að kynna fjórðunginn

Héraðsmennirnir Fannar Magnússon og Hákon Aðalsteinsson hafa tekið höndum saman um að gera stutt myndbönd með myndum af perlum Austurlands sem birt verða á Austurfrétt.

Það er Fannar sem tekur myndböndin með flygildi og setur þau saman en Hákon semur tónlistina.

„Ég á orðið töluvert magn af loftmyndum af perlum víðs vegar á Austurlandi. Mér finnst ég hafa legið heldur lengi á þeim og fékk því þessa hugmynd að fá Hákon til liðs við mig og semja tónlist.

Það er flott að hafa einhvern héðan af svæðinu og skilur náttúruna til að gera tónlistina,“ segir Fannar um samstarfið við Hákon sem nýtur vaxandi vinsælda á Spotify.

Fyrsta myndbandið sem birtist eftir félaganna er af Strútsfossi í Fljótsdal. „Mér finnst hann falin perla. Ef ég væri að markaðssetja Austurland þá væri hann meðal þeirra þriggja staða sem ég horfði mest til.

Hann er með hærri fossum landsins og einn af mínum uppáhalds. Ofboðslega tignarlegur og með svipað litróf í berginu og á Hengifossi.

Til að sjá hann vel þarf helst flygildi til að komast nálægt honum eða brölta áfram upp fjallið en gangan upp að útsýnisstaðnum fyrir neðan hann er tiltölulega þægileg og hentar flestum. Við sátum örugglega í klukkutíma og horfðum á hann þegar við gengum þangað.

Fyrir þá sem vilja mynda fossinn mæli ég með að fara þangað seinni part dags á sumrin þegar sólin nær að skína inn í gljúfrið.“

Fannar hefur þegar birt nokkur myndskeið á Instagram og Facebook. Þar er einnig hægt að hafa samband við hann en hann kveðst opinn ábendingum um áhugaverða staði. Hann segir myndböndin hafa fengið góðar viðtökur. „Ég hef fengið 3000 áhorf á Facebook sem þýðir að það er greinilega verið að horfa á þetta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.