Orkumálinn 2024

„Mörgum fannst fyndið hvað voru margir Austfirðingar í skólanum“

„Það var töluvert gert grín að því hversu margir Austfirðingar væru í skólanum en það er kannski bara merki um mikinn sköpunarkraft í fjórðungnum,“ segir Rebekka Rut Svansdóttir, sem nýverið útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands, með handrit og leikstjórn sem aðalfög, ásamt fjórum öðrum Austfirðingum.

Rebekka Rut er frá Reyðarfirði meðan hinir þrír sem kláruðu námið, Ívar Styrmisson, Bergrún Hulda Arnarsdóttir og Jónatan Leó Þráinsson, koma öll af Héraði. Tveir til viðbótar að austan eru áfram við nám við Kvikmyndaskólann en það eru þau Anna Birna Jakobsdóttir og Jón Axel Matthíasson.

Enginn lýkur námi í Kvikmyndaskólanum án þess að búa til kvikmynd sem lokaverkefni og Rebekka var metnaðarfull í því tilliti.

„Það verður að segjast að mjög margar útskriftarkvikmyndirnar eru að fjalla um keimlík efni; rammíslenskan veruleika sem oftar en ekki er grár og þungur. Mig langaði að gera þetta öðruvísi og ákvað að gera svona fantasíumynd sem gerðist á miðöldum. Þetta reyndist vera langlengsta myndin eða um 21 mínúta að lengd en hún fjallar um liðhlaupa í samaríska hernum sem er handsamaður af kaldlyndri konu sem ferðast með hann í kjölfarið þvert yfir Areníu í því skyni að greiða úr eigin vanhögum.“

Verkefnið var kostnaðarsamt að sögn Rebekku en allt hafðist það að lokum með góðum stuðningi bæði fjölskyldu og fyrirtækja. Alls tók rúma fjóra mánuði að undirbúa myndina og þar á meðal þurfti að fá til verksins sérfræðing í skylmingum því myndin gerist á miðöldum og bardagasenur þurftu að vera sem eðlilegastar.

Það er kappnóg að gera hjá Rebekku en hún hefur að hluta til greitt fyrir námið með starfi samhliða. Hún hefur þó orðið sér úti um ýmis verkefni tengd kvikmyndagerð í kjölfar útskriftarinnar og þar á meðal er hún að vinna að heimildamynd um æðafugla á Austurlandi auk annars.

Framundan er jafnframt að koma útskriftarmyndinni á framfæri hérlendis og erlendis á kvikmyndahátíðum. Rebekka vinnur nú ásamt samstarfsfólki að því að betrumbæta myndina því tíminn til eftirvinnslu í skólanum var helst til naumur.

Hafi fólk áhuga að sjá mynd Rebekku er hér linkurinn.

Mynd: Rebekka Rut (lengst til hægri) ásamt leikurum og tökuliði útskriftarmyndarinnar Aríenusaga: Þáttur III - Heiglar og hetjur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.