Minnast fórnarlamba umferðarslysa á alþjóðlegum minningardegi

Minningarathafnir verða í Neskaupstað og Breiðdalsvík á sunnudagskvöld til að minnast þeirra sem farist hafa í umferðarslysum. Árvekniátak um umferðaröryggi verður um helgina.

Minningardagurinn er alþjóðlegur, haldinn undir merkjum Sameinuðu þjóðanna þriðja sunnudag í nóvember ár hvert. Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun.

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð árið 1915 hafa 1587 manns látist í umferðinni hérlendis. Enn fleiri hafa slasast alvarlega, tekist á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Að þessu sinni er haldið árvekniátak um allt land um helgina. Minningarviðburðir verða haldnir um land allt og fjallað verður um mikilvæg málefni tengd umferðaröryggi í fjölmiðlum, myndböndum og umræðum á samfélagsmiðlum. Landsmenn eru meðal annars hvattir til að taka þátt í einnar mínútu þögn klukkan 14:00 á sunnudag.

Að kvöldi minningardagsins, sunnudagsins 15. nóvember, munu munu einingar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, ásamt fleiri viðbragðsaðilum, standa fyrir táknrænum minningarathöfnum um allt land sem við munum sýna frá í beinni vefútsendingu á Facebook til að minnast fórnarlamba umferðarslysa.

Tvær austfirskar björgunarsveitir, Eining á Breiðdalsvík og Gerpir í Neskaupstað taka þátt í athöfninni sem hefst klukkan 19:00. Á Breiðdalsvík verður kveikt á kertum við Lækjartorg en að því koma auk björgunarsveitarinnar slökkvilið og sjúkraflutningafólk. Í Neskaupstað verður kveikt á kertum fyrir utan björgunarsveitarhúsið við aðalgötu bæjarins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.