„Mikilvægt að fötin hafi karakter“

Lilja Sigurðardóttir selur barnaföt sem hafa vakið athygli fyrir að vera litrík og afar fjölbreytt. Hún fékk hugmyndina fyrir fimm árum.  Hún hefur einnig verið með skraut úr tré og keramik en aðaláherslan er þó barnafötin. 

 

Á Facebook síðu Lilju má sjá úrval af vörum sem hún hefur búið til og er að selja: barnaföt, húfur, smekki og buxur. Fötin eiga það sameiginlegt að vera úr mjög litríkum og fjölbreyttum efnum. Engin flík er eins. 

Of blautir smekkir

Lilja segist hafa verið að sauma frá því hún man eftir sér. Móðir hennar saumaði mikið og var einnig mikið í handavinnu. Lilja smitaðist því af saumabakteríunni.

„Ég fékk alltaf að vera með. Þannig að þetta kom eiginlega bara af sjálfu sér. Svo fór ég út í þetta fyrir svona fimm árum þegar ég var í fæðingarorlofi með eldra barnið mitt,“ sagði Lilja

Hún fékk hugmyndina þegar hún sá að slefsmekkir drengsins hennar blotnuðu mikið. 

„Mér fannst þeir bara ekki halda nógu vel,þannig að ég ákvað gera smekki sem væru flísfóðraðir svo krakkarnir væru ekki svona blautir. Það heppnaðist bara mjög vel og svo hefur þetta undið upp á sig,“ sagði Lilja

Litrík föt

Eftir slefsmekkina fór hún að sauma ungbarnaföt, aðallega buxur. „Svo gerði ég föt fyrir börn á leikskólaaldri og þá varð meira að gera því þeim finnst svo gaman að vera í svona litríkum fötum. 

Foreldrum finnast þetta líka þægileg föt. Þau eru létt og lipur og henta vel í leikskólann og auðvelt að klæða börnin í þau,“ útskýrir Lilja.  

Hún segist velja efnin eftir því hvað henni finnst flott. „Ég hef aðallega verið að versla við Vask upp á Héraði og svo panta ég stundum efni frá Svíþjóð. Ég vil hafa þau litrík og fjölbreytt og það hefur alltaf verið hugmyndin. Það er svo mikilvægt að fötin hafi karakter og tali til krakkanna,“ segir hún. 

 

 

Viðar Logi Þórhallsson sonur Lijlu í fötum sem hún saumaði. Myndin er aðsend. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.