Orkumálinn 2024

Mikilvægt að sýna lífið eins og það er á Instagram

„Ég byrjaði ekkert á Instagram með það í huga að fá fylgjendur og verða eitthvað „stór”. Ég nota miðilinn í rauninni á nákvæmlega sama hátt og allir aðrir, deili bara myndum úr lífi mínu og stundum einhverjum pælingum sem ég er með þá stundina,” segir Héraðsbúinn Vigdís Diljá Óskarsdóttir, en hún er í yfirheyrslu vikunnar.



Vigdís er með rúma 4000 þúsund fylgendur á Instagram. „Mér finnst þetta bara ótrúlega gaman. Ég er í samskiptum við fullt af fólki á hverjum degi og elska það. Instagram hefur líka held ég aðeins breytt því hvernig ég horfi á hlutina. Ég er mikið duglegri að taka upp myndbönd af því sem ég, eða við fjölskyldan, erum að brasa heldur en ég myndi annars gera. Ég held að ég kunni bara betur að meta hversdagsleikann minn og alla þessa litlu hluti sem hann samanstendur af, með því að ná broti og broti á myndband sem ég svo á bara sjálf eða deili. Það er líka svo notalegt að geta bókstaflega spólað til baka og séð hvað við vorum að brasa fyrir til dæmis ári síðan,” segir Vigdís. 

Hvað er það sem hún er að deila með fylgendum sínum? „Bara því sem er í gangi hjá mér hverju sinni. Líf mitt snýst aðallega um móðurhlutverkið en ég sýni líka oft frá íbúðinni okkar og breytingum sem við gerum á henni, hvað við eldum, ég hef svolítið talað um mikilvægi jákvæðrar líkamsímyndar og svo bulla ég líka bara þegar ég er í þannig skapi. Það eru svo margir sem keppast við að láta lífið sitt líta út fyrir að vera fullkomið á samfélagsmiðlum og Instagram er akkúrat gróðrarstía fyrir þessháttar glansmyndir. Þess vegna finnst mér þeim mun mikilvægara að vera bara alvöru og sýna lífið eins og það er. Auðvitað sýnir maður alltaf meira frá því sem er skemmtilegt og því sem vel gengur vel, enda reyni ég að nýta „röddina” sem ég hef með Instagram í að deila jákvæðni og góðu „vibe-i” en mér finnst hluti af því vera að fara ekki í feluleik með hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Stundum er maður bara grútmyglaður og stundum er bara erfitt að vera eins og hálfs árs.”

Fullt nafn: Vigdís Diljá Óskarsdóttir.

Aldur: 25 ára.

Starf: Fjölmiðlafræðingur/Heima með barn og hvolp.

Maki: Ísleifur Guðmundsson.

Börn: Mekkín Eldey Ísleifsdóttir.

Fyrsta æskuminning? Þriggja ára afmælisdagurinn minn á Kanaríeyjum. Við sátum fjögur systkinin á hjónarúmi að skoða undrið sem var afmælisgjöfin mín. Lítill dalmatíuhvolpur sem gekk fyrir batteríum og gat gelt, gengið og hoppað í heljarstökk.

Um hvað hugsaðir þú áður en þú sofnaðir í gærkvöldi? Hvað ég væri að pæla að vaka svona fram eftir, það væru svona tveir tímar í að dóttir mín færi fram úr.

Fyrir hvað ertu þakklátust í lífinu? Stelpuna mína. Hún er svo ótrúlega mikill snillingur!

Sérðu eftir einhverju í lífinu eða vildir hafa gert eitthvað öðruvísi? Ég er mjög sátt með hvernig líf mitt hefur spilast, auðvitað minni hlutir hér og þar en ekki eitthvað stórt sem ég myndi breyta held ég.

Besta lag allra tíma? Nú verð ég að vera klysja, Stairway to heaven er besta lag allra tíma.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Gæti ferðast í tíma. Væri fínt að vita lottótölurnar fyrir fram.

Hver er þinn helsti kostur? Hvað ég er ligeglad. Ég nenni ekki að eyða tíma í að pæla hvað einhverjum finnst eða hvað aðrir eru svona eða hinsegin, það sparar mjög mikinn tíma og orku.

Hver er þinn helsti ókostur? Hvað ég er ligeglad. Þetta getur alveg farið hringinn og orðið að óþolandi kæruleysi gagnvart hlutunum mínum til dæmis, en ég er smám saman að þroskast upp úr því. Held ég.

Trúir þú á líf eftir dauðann? Ég er alveg búin að fara hringinn með þetta. Mig langar mjög mikið að trúa því en svo er ég mjög mikil rökfræðitýpa og mér finnst bara eitthvað svo ótrúlegt að þegar við deyjum að heilinn sé búinn að „forma einhvern anda” sem lifir áfram, svona ef maður horfir á þetta blákalt. Samt tala ég oft við afa heitinn og trúi mörgum sem finna og sjá. Þetta togast svolítið á í mér.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Mér finnst svo svakalega fallegt í Mjóafirði að ég hugsa að það sé uppáhaldsstaðurinn minn. Eða Borgafjörður Eystri. Má bara velja einn?

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Ostur, rjómi og skyr.

Hvernig eru kósýfötin þín? Stuttbuxur og mjúkur náttsloppur.

Uppskrift af fullkomnum laugardegi? Minn fullkomni laugardagur er frekar dæmigerður, svona eru þeir margir. Vakna með fjölskyldunni og kúra aðeins með Mekkín upp í, fara svo og kenna morgun zumba. Svo færum við einhvert í nice brunch, myndum kíkja til mömmu og pabba, hreyfa hundinn, hitta systkini mín og systkinabörn og grilla svo saman. Svo þegar Mekkín væri sofnuð heima myndi ég rústa Ísleifi í sjóara-olsen. Þetta er ekki flókið.

Ertu feministi? Að sjálfsögðu, annað væri fullkomlega fáránlegt. Það voru konur á undan okkur sem bókstaflega lögðu lífið að veði svo við, sem á eftir þeim komu, gætum búið við þau réttindi sem maður álítur bara sjálfsögð. Auðvitað er ég feministi.

Duldir hæfileikar? Ég get spennt greipar með tánum. Nýtist oft mjög vel.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið. Þá koma margir vinir mínir heim og það er svo mikið um að vera, allir svo peppaðir og glaðir að hittast loksins.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Hallgerður Langbrók.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni. Mér leiðist svo þegar fólk segir frekar það sem aðrir vilja heyra frekar en það sem það virkilega meinar.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að vaska upp. Ég skil ekki af hverju mér finnst það svona ógeðslega leiðinlegt en mikið svakalega er ég þakklát fyrir uppþvottavélina mína!

Draumastaður í heiminum? Engin ákveðinn en mig langar rosalega að heimsækja til dæmis Maldives, það er mjög draumkenndur blær yfir þeim eyjum finnst mér.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Bara sama og alla daga held ég. Njóta tímans með Mekkín og Freyju, hvolpinum okkar. Ísleifur er á sjó eiginlega allan þennan mánuð svo við dinglum okkur bara eitthvað saman stelpurnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.