„Mig langar svo að hafa frið alls staðar í heiminum“

„Við förum oft hjónin út fjörðinn að telja fugla og á leiðinni gríp ég gjarnan með mér allt það rusl sem ég finn á leiðinni og þarna rak ég augun í þessa plastflösku, sá svo að það var bréf inni í flöskunni með þessum líka frábæra boðskap sem var eins og talað úr mínu hjarta,“ segir Sólveig Sigurðardóttir á Seyðisfirði.

Flöskuskeytið sem Sólveig fann við Vestdalseyri reyndist vera frá átta ára stúlku í Kópavogi, Þórunni Obbu Gunnarsdóttur, sem setti það í sjó í mars síðastliðnum. Skeytið reyndist ákall hennar um frið í veröldinni:

Halló, hver sá sem finnur þetta flöskuskeyti. Viltu fara að ósk minni? Hún er að þú biðjir um frið. Mig langar svo að hafa frið allstaðar í heiminum. Kær kveðja, Þórunn Obba, 8 ára.

Sólveig segist hafa vitað um leið og hún sá bréfsefnið í flöskunni að um flöskuskeyti væri að ræða enda synir hennar send slík skeyti á haf út hér á árum áður.

„Mér fannst þetta svo dásamlega skilaboð enda vildi ég gjarnan sjálf að friður ríkti fyrir alla alls staðar. Stundum vildi ég vera göldrótt til að geta beitt göldrum til að fá því framgengt en það gengur víst ekki. Svo sagði ég frá þessu á facebook en þar á ég marga góða vini og tiltölulega fljótt kom í ljós að góður vinur þar, Guðmundur Freyr Sveinsson, þekkti bæði Þórunni og móður hennar vel en Guðmundur og ég erum systkinabörn. Þannig að ég fékk fljótt samband við móðurina, Þóru Marteinsdóttir, sem lét Þórunni vita að flaskan hefði komið í leitirnar. Hún var mjög glöð að heyra það.“

Skeytið fallega sem Þórunn Obba setti í flösku og henti í sjó á suðvesturhorni landsins var átta mánuði að komast alla leið inn í Seyðisfjörðinn. Mynd úr einkasafni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.