„Mig langar bara ekki að fermast fyrst ég trúi ekki“

Kamilla Huld Jónsdóttir á Vopnafirði hefur ákveðið að fermast ekki. Fjölskyldan stefnir á að nýta peningana sem annars hefðu farið í ferminguna í að uppfylla hennar helsta draum.


Kamilla Huld er fjórtán ára gömul og hefði samkvæmt tímatalinu átt að fermast í vor. Hún segist ekki þekkja neinn sem hefur alfarið sleppt fermingunni.
„Ég hef aldrei trúað á Guð eða neitt annað og tók þess vegna ákvörðun í fyrra um að fermast ekki, mig bara langar ekki að fermast fyrst ég trúi ekki. Ég hef eiginlega alltaf vitað að ég myndi ekki fermast, ég var pínu að íhuga að fermast borgaralega en svo ákvað ég bara að sleppa því öllu saman,“ segir Kamilla Huld.

 

„Ég er mjög stolt af henni“
Bjarney Guðrún Jónsdóttir, móðir Kamillu Huldar, segir að ákvörðun hennar hafi komið sér á óvart, en samt ekki.

„Pabbi hennar er ekki í Þjóðkirkjunni þannig að það er ekki eins og við séum mjög trúrækið fólk eða hún sé að upplifa það innan heimilisins. Við tókum strax þá ákvörðun að leyfa henni alfarið að ráða þessu. Þar sem hún ákvað þetta í fyrra var ég pínu stressuð að hana myndi langa að vera með þegar fermingarfræðslan færi í gang og það liði að þessu. Við vorum búin að segja henni frá borgaralegu leiðinni og útskýra fyrir henni að það væri allt í góðu lagi að skipta um skoðun, þó svo hún væri búin að taka þessa ákvörðun. Ég styð hana í þessari ákvörðun sem og að standa með henni en hún er sú eina í sínum bekk sem ætlar ekki að fermast. Systir hennar á að fermast að ári en hún trúir heldur ekki á Guð og ætlar að fermast borgaralega en hún vill ekki missa af því að fá veislu, pakka, fínu fötin og allt sem fylgir,“ segir Bjarney.

Fótboltaferð æðsta óskin
Ætli Kamillu Huld þyki hún vera að missa af einhverju, núna þegar fermingartímabilið færist nær? „Eina sem ég missi af er að fá svona mikinn pening eins og hinir krakkarnir en það skiptir mig engu máli hvort sem er,“ segir Kamilla Huld.

Bjarney segir fjölskylduna í staðinn stefna á að gera eitthvað sem Kamillu Huld dreymir um. „Það var alltaf hugsunin að nýta peninginn sem annars hefði farið í ferminguna í að gera eitthvað saman sem fjölskylda. Æðsta ósk Kamillu Huldar er að komast á Liverpool-leik og mér finnst líklegt að við förum í þá átt sem hún vill.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar