Mesta áskorunin að fá fólk til að tala um sín hjartans mál

Þáttaröðin „Ást“ hefur göngu sína í sjónvarpi Símans í kvöld. Þar er fjallað um ást, sambönd og sambandsslit frá ýmsum hliðum. Hugmyndin að þáttunum kviknað á sama tíma hjá tveimur konum sem þekktust ekkert og bjuggu í sitt hvorum landshlutanum.

„Við Kolbrún Pálína [Helgadóttir] fengum sömu hugmyndina, án þess að þekkjast neitt og  hvor í sínum landshlutanum, um að gera þætti um skilnaði.

Við höfðum báðar gengið í gegnum skilnaði nýlega og vissum ekkert hvað snéri upp eða niður því það var ekkert efni til,“ segir Kristborg Bóel Steindórsdóttir, annar þáttastjórnenda og fyrrum blaðamaður Austurfréttar/Austurgluggans.

„Við fórum báðar á sama tíma inn í Saga Film og Símann fyrir um einu og hálfu ári síðan með hugmynd um að gera sjö þætti. Þar vorum við leiddar saman.

Þegar leikstjóri og fleiri bættust í hópinn þróaðist hugmyndin. Við töldum ekki hægt að fjalla um skilnaði án þess að fjalla um forverann, ástína. Útkoman er meiri breidd í efninu þar sem fjallað er um ást, sambönd, skilnaði og upprisu eftir skilnað.“

Í þáttunum er fjallað við helstu sérfræðinga þjóðanna í samböndum og ástarlífi en einnig venjulegt fólk sem segir sögur sínar. „Mesta áskorunin var að fá fólk sem var tilbúið að tala um jafn persónuleg mál og ástina við okkur. Á þessa fólks sem ræddi við okkur um sín hjartans mál hefði þáttaröðin aldrei orðið að veruleika. Við erum því afskaplega þakklátar.“

Þáttaröðin var frumsýnd fyrir aðstandendur í Smárabíói á þriðjudagskvöld. „Það var vel mætt og viðtökurnar afskaplega góðar. Fólk bæði hló og grét. Ég hef því engar áhyggjur af öðru en þessu verði vel tekið af þjóðinni.“

Þættirnir verða sýndir í línulegri dagskrá næstu sjö fimmtudagskvöld auk þess sem þeir verða allir aðgengilegir frá og með deginum í dag fyrir Premium-áskrifendur að sjónvarpi Símans. Kristborg segir daginn ánægjulegan en sérstakt að hafa lokið svo stóru verkefni.

„Það er undarleg tilfinning að sleppa hendinni af jafn stóru barni. Ég er ofboðslega þakklát og hamingjusöm með að þetta sé búið en það fylgir líka tómleiki því að sjá fyrir endalokin á svo stóru og tímafreku verkefni.“

Kristborg Bóel og Kolbrún Pálína við frumsýninguna á þriðjudagskvöld. Mynd: Morgunblaðið


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.