Merkilegt að sjá hvernig fólk breytist þegar það er komið út í náttúruna

Tilviljunin réði því að Ína Gísladóttir byrjaði að fara með ferðamenn um Norðfjörð en hún segir það eitt það skemmtilegasta sem hún hafi gert um ævina. Á ferðum sínum segir hún sögur úr firðinum sem hún hefur búið í nær alla sína ævi.

„Sterkasta upplifunin hefur verið að fara með fólk niður í fjöruna austan við Barðneshornið. Fólk verður yfirleitt steinrunnið þegar það kemur þangað í fyrsta sinn.

Ég var hálfhrædd við að fara þangað fyrst með fólk, maður veit aldrei hvað kveikir á fólki. Þegar ég var búin að fara þangað með þrjá hópa var ég viss um að þetta væri staðurinn.

Hornið er í mikilli mótun, það hefur breyst í gegnum árin en það er fallegt samt. Það munu einhverjar kynslóðir í viðbót njóta þess,“ segir Ína í síðasta þætti hlaðvarpsþáttarins Norðfirðings. Daníel Geir Moritz hefur haldið þáttunum úti í samstarfi við SÚN og Austurfrétt.

Þar segir Ína frá því að forföll annars leiðsögumanns hafi orðið til þess að hún hafi farið fyrstu ferðina með hóp fólks um Norðfjörð. Það hafi síðan orðið eitt það skemmtilegasta sem hún hafi gert í gegnum tíðina og góð tilbreyting frá þeim skrifstofustörfum sem hún annars sinnti.

„Ég kynntist fjölda fólks á þessum árum. Það er merkilegt að fara með fólk út í náttúruna og sjá hvað það verður allt öðruvísi þegar það er komið út úr þessum hversdagsleika og lúxus.“

Þegar selirnir kasta hamnum

Ína er meðal annars þekkt fyrir að leiða gönguferðir í Páskahelli, út með norðanverðum Norðfirði, að morgni páskadags. Í þættinum segir hún þjóðsögu tengda hellinum um samskipti sela og manna, en víða um heim er sú saga til að selir sé mannfólk í hami.

„Á stórhátíðum leyfist selum að kasta ham sínum og gerast menn. Hérlendis gerist það á páskum. Það er til salur að sonur bóndans á Bakka, sem stóð fram til 1907 á þeim stað sem íbúðarhúsið Múlinn er núna, hafi gengið út í Páskahelli að morgni páskadags því hann hafði grun um að þar væru selir á ferð.

Hann kom þar auga á stúlkur og náði að sjá hvar ein þeirra lét ham sinn. Þegar hún ætlaði aftur í sjóinn, eftir að hafa skemmt sér með hinum sjávardýrunum, fann hún ekki haminn. Hann hafði haminn með sér heim og læsti ofan í kistu. Það næsta sem spyrst til þeirra er að þau hafi búið saman og eigi sjö börn en að því kom að hún náði að brjóta upp kistilinn, ná hamnum og hverfa aftur til sjö barna sem hún átti í sjó.

Sagan segir að seinna hafi hún í Uxavoginum sent bónda sínum mikinn sæuxa, gráan að lit, í draumi. Maðurinn brá sér niður, barði blöðrurnar úr nösunum á uxanum og kom honum í land. Frá honum kom síðan mjög gott kúakyn sem hún hafði sent bónda sínum til að fæða börnin sem hún átti í landi.“

Enginn fór framhjá Seldal án þess að pabbi vissi af því

Ína, sem gjarnan er kennd við bæinn Seldal í Norðfjarðarsveit, rifjar einnig upp sögur af uppvexti sínum í sveitinni. Mannmargt var á bænum, systkinin voru níu, fædd á 19 ára tímabili. Að auki bjuggu tveir bræður föður hennar þar alla tíð. „Þótt við systkinin værum byggjum ekki heima öll í einu þá var aldrei minna en 10-12 manns við borðið.“

Á stóru heimili varð stundum þröngt í búi. „Dalurinn er í rauninni kotbær og erfiður til ábúðar. Í dag myndi ég segja að við hefðum verið fátæk varðandi hvað krakkarnir fengu. Flestir áttu hjól, sleða eða skíði sem við áttum aldrei en það var í lagi, maður fékk lánaðan sleða og slíkt. Maður var ekkert að pæla í þessu.“

Ína var meira og minna í Seldal fram að fermingu að hún fór að vinna úti í kaupstað við síldarsöltun. Hún segir síldarárin um margt hafa verið skemmtileg þótt hún óski þess ekki að þau komi aftur. „Það var aldrei stopp. Ég man eftir 12-13 ára krökkum sem sofnuðu á miðjum vöktum.“

Framhjá Seldal lá líka gamla þjóðleiðin upp í Oddsskarð og komu ferðalangar þar oft við á leið sinni. Það var líka fylgst með velferð þeirra sem á ferðinni voru. „Pabbi var ekki forvitinn maður en það fór enginn framhjá Seldal án þess að hann vissi af því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.