„Mér hefur verið líkt við fiðrildi“

Dagar myrkurs á Austurlandi eru nú í fullum gangi og er dagskráin sérlega vegleg á Seyðisfirði, en það er Dagný Erla Ómarsdóttir sem heldur utan um hana. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


„Seyðfirðingar eru duglegir að taka þátt í þeim viðburðum sem í boði eru í bænum og til að mynda var fyrsti viðburðurinn okkar vel sóttur, en það mættu um 70 manns í „afturgönguna“ síðastliðinn miðvikudag,“ segir Dagný Erla sem segir að einnig gestir komið að.

„Ég tók eftir gestum frá öðrum stöðum í göngunni og vonandi gerðu einhverjir sér ferð í bíó í Herðubreið í gærkvöldi þegar kvikmyndin Ég man þig, sem byggð er á bók Yrsu Sigurðardóttur, var sýnd. Svo mæli ég eindregið með því að Austfirðingar kíki yfir til okkar á laugardaginn á listasýningu í Skaftfelli klukkan 16:00“


Dagný Erla segir að viðburðir sem þessir skipti máli í skammdeginu. „Mér finnst það reyndar alltaf skipta máli að fólk hittist og geri eitthvað saman og vonandi finna allir eitthvað í dagskránni sem heillar, hvort sem það er hér á Seyðisfirði eða annars staðar á Austurlandi. Þetta brýtur upp skammdegið sem hellist allt í einu yfir mann og gefur manni kannski afsökun eða ástæðu til að gera eitthvað annað eða öðruvísi en vanalega, sem er alltaf hollt.“

Er eitthvað sem stóð uppúr í dagskránni í ár að mati Dagnýar Erlu? „Afturgangan er eitthvað sem við gerum á hverju ári og er ákveðinn hápunktur Daga Myrkurs á Seyðisfirði og eins og síðustu ár þá heppnaðist hún vel. Ég var líka mjög spennt fyrir draugasögu-upplestri á bókasafninu í gær sem er hefur ekki verið áður og svo hlakka ég til að fara í Sundhöllina í kvöld en það verður löng opnun til 22:00, með ljósaseríum og rómó stemningu.“

Fullt nafn: Dagný Erla Ómarsdóttir.

Aldur: 34 ára.

Starf: Atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi á Seyðisfirði.

Maki: Haraldur Björn Halldórsson.

Börn: Margrét Móeiður og Sigrún Ísold.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ferðast til Ítalíu, ná að gera dauða upphífingu (helst nokkrar í röð) og fara á tónleika með Celine Dion.

Duldir hæfileikar? Kannski ekki dulinn hæfileiki en ég er svaka flink að búa til franska súkkulaðiköku.

Mesta afrek? Að koma dætrum mínum tveimur í heiminn.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Þessi er erfið, ég væri til í að taka í spaðann á Kenny Dalglish en svo mætti Kim Kardashian alveg bjóða okkur mæðgum á play-date.

Hvað er best við að búa á Seyðisfirði? Það besta við að búa á Seyðisfirði er að samfélagið er þétt, mér finnst gott að hafa fjöllin í kringum mig og svo búa mamma og pabbi hér sem mér finnst forréttindi fyrir stelpurnar mínar.

Trúir þú á drauga? Já, á góða drauga.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma og pabbi.

Hverjum líkist þú mest? Hmmm, mér hefur verið líkt við fiðrildi vegna þess að á ég erfitt með að vera kyrr.

Í hverju finnst þér þú vera betri en aðrir? Guð, mér finnst ég ekki betri en einn né neinn í neinu.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? Ég myndi fara í Sportvörur og láta drauminn um heima-gym rætast.

Hvað er í töskunni þinni? Akkúrat núna er það síminn, kortin mín, lyklar, AD-krem, heyrnatól og þúsundkall.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagur því þá getum við fjölskyldan vaknað í rólegheitunum og höngum á náttfötunum eins lengi og við getum, alveg þangað til við förum í íþróttaskólann.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að taka upp úr uppþvottavélinni, hreinlega veit ekki af hverju en mér finnst það bara bilað leiðinlegt þó það taki oftast bara nokkrar mínútur.

Hvað er vinátta? Vinátta er eitt það mikilvægasta og fallegasta í heiminum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Ég leit alltaf svo mikið upp til ömmu Erlu og geri það enn, og vildi verða búðarkona eins og hún.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Að horfa á sjálfa/n sig í speglinum og segja „hey, ég er frábær“. Svo mæli ég reyndar líka með að prófa fallhlífastökk, það er sturlað.

Hvaða einstakling finnst þér þú þekkja, þótt þú hafir aldrei hitt hann? Röggu nagla, en ég veit ég mun hitta hana fyrr en síðar og hlakka til.

Draumastaður í heiminum? Sandarnir á Djúpavogi.

Góð uppskrift af laugardegi? Vakna snemma (samt ekki of snemma), drekka kaffibollann minn á meðan stelpurnar horfa á barnatímann, íþróttaskólinn, fara í ræktina á meðan stelpurnar borða grjónagraut hjá ömmu sinni og afa og hafa síðan ekkert sérstakt planað frameftir degi, heldur bara eiga kósý tíma með fjölskyldunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.