„Menn vilja meina að ég sé besta Bubba eftirherma landsins“

Reyðfirðingurinn Friðrik Bjartur Magnússon opnaði barinn Askur Taproom á Egilsstöðum fyrir viku. Hann er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt.


„Síðan ég byrjaði sem bruggari hjá Austra Brugghúsi fyrir rúmu ári hef ég verið mjög spenntur fyrir þeim möguleikum sem rýmið fyrir framan býður uppá,“ segir Friðrik Bjartur, aðspurður um tilurð barsins, sem er í sama húsnæði og Austri Brugghús.

„Það skapar ákveðna stemningu i að bjóða uppá bjór og geta leyft fólki að sjá framleiðslurýmið þar sem bjórinn varð til og auka þannig nánd við vöruna. Ég hafði viðrað þessa hugmynd við marga félaga mína en það dróst alltaf og ekkert varð úr. Í september sýndi ég Páli Edwald vini mínum brugghúsið og hann sá strax þetta vannýtta tækifæri sem húsið bauð uppá og við ákváðum að láta vaða. Nú loks eftir langan aðdraganda er barinn orðinn að veruleika,“ segir Friðrik Bjartur.

Bjór er meira en bara lager
Friðrik Bjartur segir að ætlunin sé meðal annars að taka á móti hópum, vinnustöðum, vinahópum og öðrum hópum, kynna þeim starfsemi brugghússins og þann bjór sem frá því kemur. „Við ætlum að bjóða uppá gott úrval af úrvals bjór, bæði frá Austra og öðrum íslenskum „handverks-brugghúsum“ og stefnum á að halda úti bjórskóla og fleiri skemmtilegheitum. Það er mikil gróska í bjórmenningu á landinu núna og gaman að kynna fólk fyrir þeirri flóru af bjór sem til er, en bjór er meira en bara lager.“

Meyr og þakklátur fyrir viðtökurnar
Friðrik Bjartur telur mikinn markað fyrir slíkri starfsemi á Egilsstöðum. „Ef við náum að skapa þá sérstöðu og sinna því hlutverki sem barinn á að sinna er sinnt þá er það ekki spurning. Við viljum líka lífga uppá lífið hér á Egilsstöðum og bjóða fólki uppá þægilegann heimapöbb til kasta af sér mæðinni á eftir erfiðann dag eða fá sér einn með vinunum. Við stefnum einnig á að vera með metnaðarfulla kokkteila og á næstu misserum fæ ég kokteilsérfræðing úr heimabyggð til að setja það upp með mér.

Eftir þær viðtökur sem hugmyndin og framkvæmdin hefur fengið er ég mjög meyr og þakklátur fyrir þá hvatningu og aðstoð sem ég hef fengið frá vinum og samfélaginu. Austurland er svo stútfullt af opnu og góðu fólki og ég held að flestir vilji sjá alla svona uppbyggingu á svæðinu ganga vel og auka við atvinnu og stemningu í fjórðungnum.“

Fullt nafn: Friðrik Bjartur Magnússon.

Aldur: 25.

Starf: Bruggari, bareigandi og stundum þykist ég kunna að kenna golf.

Maki: Nei, nei.

Uppáhalds bjórinn þinn? Vinir vors og ylliblóma frá I.D.E brugghúsi og Wasabi D.I.P.A sem ég vinn nú að því að þróa í samstarfi við Nordic Wasabi.

Hvað er vinur fyrir þér? Einhver sem er alltaf til staðar.

Hver er þinn helsti kostur? Ekkert stress.

Hver er þinn helsti ókostur? Kannski of lítið stress.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Eins og er, er það bara að vakna og fara beint að vinna í brugghúsinu, dagsverkin þar eru nú misjöfn. Svo þegar því líkur fer ég að vinna á Aski og er þar til lokunar. Svo fer ég heim að sofa.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Meira af skemmtilegu, minna af leiðinlegu.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Hitta Sonju Valdin, læra yoga í Indlandi, klára að lesa Annaðhvort - Eða.

Duldir hæfileikar? Menn vilja meina að ég sé besta Bubba eftirherma landsins.

Uppáhalds matur? Skelfisksalatið á Gistihúsinu er í miklu uppáhaldi þessa dagana.

Mesta afrek? Kláraði B.A í heimspeki, hafði mjög gott og gaman af því.

Besta bíómynd allra tíma? Fantastic Mr. Fox.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Þórbergur Þórðarson.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni.

Tæknibúnaður? Hálfónýt Acer tölva frá 2013 og brotinn Samsung Galaxy s6.

Hvað þarf góður bruggari að hafa? Þolinmæði og útsjónarsemi.

Hvað ætlar þú að gera um helginar? Er að halda Pub Quiz hér á Aski í kvöld, svo annaðkvöld verður ljúf stemning hér. Vonandi næ ég svo að slaka á á sunnudaginn og hitta fjölskylduna og svona.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar