„Meira fyrir brauðtertur en sætar tertur“

Sardínur og súrar gúrkur voru meðal þess sem prýddu verðlaunaterturnar í brauðtertukeppni Menningarmiðstöðvar Fljótdalshéraðs sem haldin var í gær. Verðlaunahafa greindi á hvort meira majones væri af hinu góða.

Það var Þráinn Skarphéðinsson sem fór með sigur af hólmi í keppninni. Hann hugsaði til þjóðhátíðardagsins þegar hann gerði tertuna, hafði grasvöll í miðju hennar og flaggstangir beggja vegna hans.

„Ég hef haft áhuga á eldhúsinu. Þegar ég var tólf ára í Austurbæjarskóla bað ég um að fá að fara í matreiðslu. Þá var hlegið að mér og ég fékk ekki að fara í matreiðslu.

Konan mín vinnur oft lengur en ég þannig ég fer heim og elda kvöldmatinn. Þá fæ ég að dunda mér í eldhúsinu sem mér finnst gaman,“ sagði Þráinn sem gjarnan er kenndur fyrir Héraðsprent.

Þráinn segir þetta áhugamál hans hafa orðið til þess að hann fór að gera brauðtertur sem hann hafi gert bæði fyrir fermingaveislur innan fjölskyldunnar og fyrir kvenfélagið Bláklukku á Egilsstöðum. „Ég er meira fyrir brauðtertur en sætar tertur. Ég sneiði hjá þeim,“ segir hann.

Á tertunni hans voru meðal annars sardínur, risarækjur, ólífur og kirsuber. „Það eru engin geimvísindi að búa til brauðtertu. Maður fer í búðina og velur úr því sem til er. Mér finnst þessi keppni skemmtilegt framtak sem vonandi hvetur fleiri til að spreyta sig,“ segir Þráinn.

Margir telja majones eitt af lykilefnum brauðtertunnar. Þráinn fer hins vegar aðra leið. „Í maukinu sem ég set milli laga er ég með majones og sýrðan rjóma. Síðan kryddar maður þetta og smakkar til. Síðan þarf brauðtertan að standa sólarhring í kæli þannig að bragðið nái í gegn,“ segir Þráinn.

Systurnar Joanna Natalia og Maria Anna Szczelina hlutu viðurkenninguna Bjartasta vonin. Ólík Þránni telja þær lykilatriði að hafa nóg af majonesi á tertunni. Af öðru áleggi á þeirra tertu má nefna súrar gúrkur og radísur, sem þær skáru snyrtilega út.

„Við tókum þátt því mamma okkar kom með góða uppskrift sem við vildum prófa. Annars var engin sérstök hugsun á bakvið það sem við gerðum annað en að gera góða tertu,“ sögðu þær.

Þátttakendur í Brauðtertunni 2021 við verk sín á Tehúsinu í gær. Sigurtertan er fremst í mynd.
Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.