Með róbótann Garðar Sigurvin til Noregs

Dodici-, lið Vopnafjarðarskóla, komst nýverið í átta liða úrslit norrænu Lego-keppninnar eða First Lego League, en liðið hafði áður unnið forkeppni hér á Íslandi. Þetta var í annað skipti á ári sem liðið vann Íslandskeppnina og fór svo til Noregs til frekari þátttöku.

„Það kom pínu á óvart að vinna Íslandskeppnina aftur, þótt við vonuðumst eftir því. Við vissum að við værum með góðan róbóta og verkefni í höndunum sem skilaði okkur það mörgum stigum að við ættum möguleika á því,“ segir Freyr Þorsteinsson, nemandi í áttunda bekk Vopnafjarðarskóla og einn liðsmanna Dodici- í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Keppnin féll niður 2020 vegna Covid-faraldursins og 2021 keppnin var loks haldin í byrjun síðasta árs með fjarfyrirkomulagi. Hana vann Dodici- og tók svo þátt í Norðurlandakeppninni sem haldin var í Álasundi. Keppnin fyrir árið 2022 var haldin í nóvember í Háskólabíói. Vopnfirðingar fóru síðan beint í keppnina við Norðmenn og Svía, sem haldin var í Osló þann 3. desember.

Aðeins eitt íslenskt lið hafði áður komist í átta liða úrslitin. Í keppninni í Osló voru 49 lið frá Noregi og Svíþjóð. Alls hófu 528 lið keppni í þeim löndum.

Sótt í smiðju Svamps Sveinssonar

Í upphafi skólaárs liggja áskoranir keppninnar. Hún skiptist í fernt. Í fyrsta lagi er það nýsköpunarverkefni, þar sem leitað er lausna á vandamáli samtímans og kynnt fyrir dómnefndi. Í öðru lagi er það samvinna liðsins með áherslu á jafna þátttöku og ábyrgð, í þriðja lagi hönnun og forritun róbótans og í fjórða lagi frammistaða hans í þrautabraut.

Yfir haustið byggja nemendurnir utan á róbótann, meðal annars arma til að grípa þá hluti sem eru í brautinni. Að þessu sinni var brautinni breytt þannig að hægt var að ræsa róbótann á tveimur stöðum eða skipta um arma á honum. Liðsmenn, í sitt hvoru rásmarkinu, mega tala saman en ekki rétta hluti á milli, róbótinn þarf að taka hlutina með sér yfir og keyra allt sjálfur. Best er að vera með sem fæsta arma til að spara tíma.

„Við köllum hann Garðar Sigurvin. Róbótinn sem unnum með í vor hét Harpa eftir karakter úr teiknimyndunum um Svamp Sveinsson. Við ákváðum að halda okkur við það þema og nú var komið að Garðari. Við fengum þennan róbót í verðlaun þá. Síðan er það sigur á íslensku og win á ensku,“ útskýrir Þórhildur Inga Hreiðarsdóttir, nemandi í 9. bekk og annar liðsmaður Dodici-. Vandlega var gætt að Garðari Sigurvini í ferðalaginu til Noregs og hann tekinn með í handfarangri kennara.

Rufu 300 stiga múrinn

Knappur tími var á milli keppnanna nú fyrir áramótin, tíu dagar liðu frá keppninni í Háskólabíói þar til Vopnfirðingarnir þurftu að vera komnir upp í flugvél til Noregs. Mikið þurfti að gera á stuttum tíma á Vopnafirði, meðal annars koma verkefninu yfir á ensku, nokkuð sem hinir norrænu mótherjar þeirra þurftu ekki að gera.

Svo vel vildi til að þá voru þemadagar í skólanum þannig að Dodici- hópurinn gat að mestu einbeitt sér að Lego-inu. Bætt við róbótann sem skilaði árangri í Noregi. „Hann náði 310 stigum. Markmiðið okkar var að komast yfir 300 stig. Við vorum búin að forrita hann fyrir 345 stig en það var fjarlægari möguleiki,“ segir Þórhildur.

Dodici- með sigurlaunin að lokinni íslensku forkeppninni. Mynd: Háskóli Íslands/KRI

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.