Skip to main content

Með Ísland upp um alla veggi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2023 17:45Uppfært 04. júl 2023 17:47

Hjónin Heinke og Eckart Krome viðurkenna að hafa ekkert vitað um Ísland þegar þau komu fyrst til landsins árið 1976. Þau eru heldur fróðari nú, 27 heimsóknum síðar. Þau eru bæði lærðir ljósmyndarar og eftir þau liggur fjöldi mynda af landinu.


Þau hafa smitað bæði afkomendur og vini af Íslandsáhuganum. Þau eiga dökkgráan Volkswagen-sendibíl sem er sérútbúinn fyrir Íslandsferðirnar. Þegar Austurfrétt rakst fyrst á þau á tjaldsvæðinu að Skipalæk í Fellum í fyrrasumar var bíllinn þar með borða með íslenskum fánum og ártölum heimsókna þeirra.

Einhver úr hópnum kemur með bílinn til landsins með Norrænu og síðan skiptist fólkið á þannig að þau sem síðustu koma ferja hann aftur til baka.

Ísland þolir vart endalaust af ferðafólki


Fyrsta heimsókn þeirra til Íslands var árið 1976. Þá voru fáir útlendingar á ferð um landið en það er öðruvísi núna. „Suðurlandið er ekki lengur jafn spennandi vegna allra ferðamannanna. Það er helst að Jökulsárlón togi í okkur. Ísland þolir varla endalaust af ferðafólki, vonandi hrynur það ekki undan ásókninni.

Við höfum séð á Akureyri og í Reykjavík hvernig lífið umturnast þegar fólk af skemmtiferðaskipum streymir í land. Síðan fer það í skoðunarferðir með rútum. Það kynnist ekki landinu af neinni alvöru.

Við erum heldur ekki fólkið sem keyrir hringinn á fimm dögum, þvælumst frekar um Norðurland í sex vikur. Stundum förum við bara 13 km á dag og njótum þess að staldra við,“ segir hún.

Faðirinn hreifst af landinu í stríðinu


Krome-hjónin búa í Sulingen í norðanverðu Þýskalandi. Þau eru bæði ljósmyndarar að mennt, reka þar Foto Krome, ljósmyndavöruverslun og stúdíó sem afi Eckerts stofnaði. Faðir hans, ljósmyndari hjá þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni, var sá sem fyrst hreifst af Íslandi.

„Hann flaug yfir Noreg og Ísland til að mynda þau. Hann varð hugfanginn af Íslandi og sagði hverjum sem heyra vildi frá því sem hann hafði séð af landinu úr lofti. Eftir það dreymdi hann um að heimsækja landið,“ segir Eckert.

Þar upp á veggjum eru margar myndir af Íslandi, meðal annars mögnuð mynd af steindranganganum í Vopnafirði sem minnir á fíl. Á myndinni skín sólin þegar hún er að setjast í gegnum gatið undir fílnum.

Enn fleiri myndir blasa við í íbúð þeirra á efri hæðinni, meðal annars dagatöl með myndum úr Íslandsferðunum. Hjónin byrjuðu á þeirri hefði að gefa helstu viðskiptavinum sínum slík dagatöl fyrir um 20 árum. „Við getum ekki prentað út fleiri myndir, plássið er búið. Ég er með nokkrar myndir af barnabörnunum í símanum – allar hinar eru frá Íslandi!“ segir Heinke.

Líst ekki á suma bílana í Norrænu


Eftir hátt í þrátíu Íslandsferðir hafa Krome-hjónin séð ýmislegt skrautlegt. Þeim er minnisstætt þegar þau sáu hákarl í fyrsta inn en það var á Borgarfirði eystra. „Þetta var stór fiskur sem stóð aftur af trukki sem keyrði í gegnum þorpið og frá honum lagði ægilegan fnyk!“

Þau rifja líka upp eftirminnilega ferð með Norrænu þar sem verið var að flytja hey frá Íslandi til Færeyja. Vont var í sjóinn og heyið illa fest þannig að bílaþilfarið var allt á kafi í heyi.

„Við höfum stundum áhyggjur af bílunum sem við sjáum í Norrænu, þetta eru stórir, þungir trukkar sem geta hvergi keyrt nema á malbikinu á Íslandi. Ef þeir fara út af því þá sökkva þeir og sitja fastir. Við völdum okkur minni bíl til að geta elt slóðana.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.