Maximús Músíkus leiðir börnin inn í töfraheim tónlistarinnar

Hin tónelska mús Maxímús Músíkús heimsækir Austurland um helgina og kemur fram á tónleikum á barnamenningarhátíðinni Bras með sameinaðri Sinfóníuhljómsveit Austurlands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Skapari Maximúsar segir músina leiða börn auðveldlega inn í töfraheim tónlistarinnar án áreynslu og með gleði.

Fyrstu tónleikarnir með Maxímús Músíkús voru haldnir á vormánuðum 2008 af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sögurnar eru síðan orðnar fimm og yfir 20 sinfóníuhljómsveitir víða um heim hafa flutt verkin á yfir 100 tónleikum.

„Lítil börn eru svo spennt fyrir hljóðfærum og galdrinum sem felst í því að vera með hlut sem getur búið til tónlist. Tónlistin er okkur eðlislæg og nauðsynleg, eitthvað sem snertir okkur öll, og það er gaman að sjá hvað krakkarnir verða stóreygir við að sjá hljóðfærin og heyra það sem hljómar úr þeim.

Það er ómetanlegt að vera þátttakandi í að opna þennan heim fyrir börnunum. Þegar við spiluðum Maximús í fyrsta sinn var þvílík þögn og einbeiting í salnum, fullum af leikskólabörnum, nokkuð sem við höfðum ekki upplifað á sama hátt áður. Þá hugsaði ég með mér að ég yrði að gera efnið aðgengilegt fyrir alla aðra.“

Þetta segir Hallfríður Ólafsdóttir, höfundur ævintýranna um Maxímús Músíkús. Hún kemur með austur um helgina og verður hljómsveitarstjóri á fjórum sýningum eystra.

Sígild verk sniðin að nýjum áheyrendahópi

„Það er gaman að ferðast með Maxa út á land og um lönd. Ég fer ekki alltaf með, oftast sendum við efnið eitt til útlanda og annað fólk setur það upp. En það er ótrúlega gaman að vera viðstödd og sjá hve vel allir skemmta sér: börn, foreldrar og ekki síst hljóðfæraleikararnir. Það er gott merki um að hafa hitt í mark þegar þeir hlæja.“

Sýningin um Maxímús inniheldur nokkur af allra þekktustu hljómsveitarverkum veraldar. Þannig er Bolero aðalverkið í sýningunni sem kemur austur um helgina. Í henni hljómar einnig „Hátíðargjall fyrir einstaka mús“, smellurinn „Á Sprengisandi“ og örlítið brot úr „Örlagasinfóníu“ Beethovens þar sem sinfónían hefur verið stytt niður í 40 sekúndur!

„Við sníðum verkin að þessum nýju áheyrendum og pössum uppá að það sé alltaf eitthvað fjör í gangi. Það er alltaf eitthvað nýtt að sjá á fínu myndunum úr bókunum sem er varpað upp á skjá á tónleikunum, stundum fá áheyrendurnir meira að segja að taka þátt í flutningnum og fá svo að syngja „Lagið hans Maxa“ með hljómsveitinni í lokin og þá fá allir að hitta Maxa sjálfan!“ segir Hallfríður.

Sem fyrr segir eru hljóðfæraleikarnir að þessu sinni úr Sinfóníuhljómsveitum Norðurlands og Austurlands. Karna Sigurðardóttir hjá Tónlistarmiðstöð Austurlands kom sveitunum saman. „Það skiptir máli að íslensk fræðsluverkefni í tónlist ferðist líka til okkar hér fyrir austan þannig að börnin okkar fái að heyra það besta. Um leið tengjum við saman þessar smærri hljómsveitir sem gefur hljómsveitarfólkinu okkar tækifæri til að spila saman.“

Fjórar sýningar verða á sögunni „Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina“ eystra. Í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði á laugardag klukkan 10:30 og í Egilsstaðakirkju klukkan 14:30 sama dag. Á sunnudag verður verkið sýnt klukkan 10 í Herðubreið á Seyðisfirði og klukkan 15 í Miklagarði á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.