Orkumálinn 2024

Matur meira áberandi á Jólakettinum en áður

Tæplega 70 aðilar munu bjóða vörur til sölu á jólamarkaðinum Jólakettinum sem haldinn verður að Valgerðarstöðum ofan Fellabæjar á morgun. Þótt framboðið sé fjölbreytt er jólatrjáasalan alltaf þungamiðjan.

„Þetta hefur gengið vel. Rúmur helmingur söluaðila er búinn að setja upp sín borð, tjaldið milli húsa er komið og það er allt á tíma þannig við erum að fara heim en mætum svo aftur hálf níu í fyrramálið,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, starfsmaður Skógræktarinnar á Hallormsstað.

Markaðurinn er haldinn af Skógræktinni og Félagi skógarbænda á Austurlandi sem selja jólatré og bjóða upp á ketilkaffi á markaðinum. Skógarbændur undirbjuggu sig fyrir söluna með að fara á námskeið hjá Þór Þorfinnssyni, skógarverði á Hallormsstað, í byrjun mánaðarins í því hvernig velja skyldi jólatré. Óveðrið í vikunni setti þó strik í reikninginn þannig að brösuglega gekk að ná í trén.

Jólamarkaðurinn er sá stærsti á Austurlandi. Markaðurinn í ár er álíka stór og síðustu ár en um 70 aðilar verða með sölubása. Bergrún Arna segir fjölbreytni ráða ríkjum en þó hafi aldrei verið eins mikil matvara á boðstólunum í ár. Flestir seljendur eru af Austurlandi en nokkrir koma utan fjórðungs.

Um 3000 gestir hafa sótt markaðinn síðustu ár og búist er við margmenni enda veðurspáin hagstæð. Bergrún segir svæðið á Valgerðarstöðum einn helsta styrkleika markaðarins. „Húsnæðið nær yfir 1000 fermetra, hér er nóg af bílastæðum þannig að það er aðstaða til að taka á móti gestum. Síðan eru vörurnar eru fjölbreyttar.

Gestir koma til að upplifa jólastemminguna, fá sér ketilkaffi, velja sér jólatré og sækja sér í jólamatinn.“

Á markaðinum er þó ekki bara sala. Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði eru til viðtals og þá mun Hitaveita Egilsstaða og Fella afhenda íbúum trekt til að safna lífrænni fitu og olíu sem til fellur á heimilum, en hitaveitan fagnar í dag 40 ára afmæli sínu.

Jólamarkaðurinn opnar klukkan 11:00 og lokar klukkan 16: 00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.