„Markmiðið að verða betri í dag en í gær“ 

Guðrún Óskarsdóttir náttúrufræðingur og maðurinn hennar Einar Hagen karatekennari fluttu austur í Neskaupstað fyrir fimm árum síðan. Hún fékk vinnu hjá Náttúrustofu Austurlands og Einar fór að þjálfa karate. Þau hafa samanlagt áratugareynslu af karateiðkun og kennslu. 

 

Heya Norge

Einar er fæddur og uppalinn í Noregi. Hann fæddist í bænum Odda í Suður-Noregi en flutti til Stavenger með móður sinni þegar hann var í kringum 14 ára aldur. Þar byrjað hann að æfa karate þegar hann fann klúbb sem kenndi Shotokan karate. Hann fann sig þó ekki í strax. 

„Nei alls ekki, það tók mig um ár að átta mig að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég var bara ekki viss fyrr en ég fékk gula beltið. Það var ekki árangurinn að ná gula beltinu heldur það að mér tókst að komast yfir óttann og óöryggið við að vita ekkert hvað ég væri að gera eftir að hafa flutt þvert yfir landið.

Fann sína köllun

Það eru mjög ólíkar mállýskur talaðar eftir landshlutum í Noregi og að vera á þessum viðkvæma aldri og skilja varla nýju bekkjarfélagana þegar þeir töluðu fór ekki vel í mig. Ég einangraðist, fann mig ekki í neinu sem ég prófaði og ofan á allt annað þyngdist ég. En þegar ég náði beltisprófinu fann ég að ég hafi fundið minn stað. 

Mér var tekið eins ég var og ég gat gert þetta á mínum forsendum. Ég var hvattur af þjálfurum, mér var hjálpað og þetta var kúl. Svo þegar ég sá að ég væri að ná tökum á þessu þá fann ég að þetta var það sem ég ætlaði að gera í lífinu. Þetta var eitthvað sérstakt,“ segir Einar.

Hæsta stig hógværðar

Þegar hann var 22 ára varð hann sá yngsti í Noregi til að fá þriðja svarta beltið. Það met stóð mjög lengi en hann segir að minnst einn sé búinn að slá það en við höfum engar sannanir fyrir því.

Til útskýringar, þá er hægt að fá allt að tíu svört belti en hæsta stigið næst aðeins ef einstaklingur hefur varið æfinni í þágu karates og hefur gefið allan hug sinn og hjarta í iðkunina. Einar segir aðeins fimm manns hafi náð því stigi í sögu Shotokan karate stílsins.

Í dag er Einar með sjötta svarta beltið og er sá eini á Íslandi sem hefur náð þessum áfanga. Guðrún er með þriðja svarta beltið og ein af þremur konum Íslandi sem hafa náð því. 

Það sést langar leiðir að hógværðin er mikil hjá þeim og vilja þau ekki gera mikið úr þessu. 

„Þetta skiptir ekki máli þannig séð. Fyrst og fremst er þetta til að sýna fram á að maður er enn að og trúr íþróttinni eða listinni og líka hugmyndafræðinni sem liggur að baki. 

Karate eða tennis

Einar kom til Íslands fyrir sextán árum síðan til að þjálfa. Hann fór að þjálfa hjá Karatedeild Breiðabliks þar sem Guðrún var að æfa. 

„Ég var búinn að æfa í eitt í ár og var komin með appelsínugula beltið þegar Einar byrjaði að þjálfa. Ég var alltaf í tennis og það er svo mikil einstaklingsíþrótt þrátt fyrir að margir æfi saman. En vinir mínir byrjuðu að æfa og ég vildi vera með þeim.

Strax og ég byrjaði í karate og fannst mér það virkilega gaman. Ég hlakkaði alltaf til að mæta á æfingar. En svo fékk ég að heyra oftar og oftar að ég yrði að velja á milli tennis eða karate. Ég æfði báðar íþróttir í einu, alveg 100%, á sama tíma. 

Kaizenkai

„Ein helsta ástæðan fyrir því að ég valdi karate var sú að mér finnst bara alls ekki gaman að keppa. Í karateinu er ekki þessi pressa að þurfa að vera að keppa í sífellu. Markmiðið er ekki næsta mót. 

Maður getur æft karate algjörlega á sínum forsendum og litið á þetta sem listform frekar en keppnisíþrótt. Markmiðið er að verða betri í dag en í gær,“ segir Guðrún. 

Einar tekur heilshugar undir þetta. „Hugmyndafræðin sem við þjálfum eftir og notum kallast Kaizenkai. Kaizen er hugtak sem þýðir að vinna að og leggja sig allan fram til að bæta sig og Kai þýðir hópur. Svo hópur sem vinnur sífellt að því að bæta sig og verða betri,“ útskýrir hann

Karate á Austurlandi

Fyrir fimm árum þegar Guðrún var ráðin til Nátturustofunnar var engin karatedeild á Austurlandi. Einar kom nokkrum mánuðum síðar því hann þurfti að klára samninginn sinn við karatedeild Breiðabliks. 

„Upphaflega ætluðum við bara að finna okkur húsnæði til að þess að geta æft sjálf. Við æfum mikið og viljum halda okkur í formi og getunni til staðar.“ segir Einar.

„En svo er það bara þannig að það er miklu skemmtilegra þegar margir æfa saman og þá vildum við slá tvær flugur í einu höggi,“ bætir Guðrún við. 

Það leið þess vegna ekki á löngu þar til þau voru farin að skipuleggja stofnun karatefélags á Austurlandi. Fyrst um sinn bjuggu þau í Neskaupstað og því leituðu þau til Íþróttafélagsins Þróttar í leit að húsnæði.  

Stefán skipti sköpum

Þeim var bent á að tala við Stefán Má Guðmundsson heitinn, sem þá var formaður Þróttar. Hann væri maðurinn til að tala við. Það reyndist rétt og tók hann á móti þeim með opnum örmum. „Það var ótrúlegt að hitta Stefán. Hann vildi allt fyrir okkur gera. Maður fann hvað hann var áhugasamur og með okkur í liði,“ segir Einar. 

„Hann græjaði þetta eiginlega bara allt fyrir okkur. Án hans hefði þetta aldrei gengið svona vel. Það var svo mikill eldmóður í honum og svo kannski sáu hann og fleiri kostina við að bæta við íþróttagrein. Fjölbreytni er alltaf góð,“ bætir Guðrún við.

Viðbrögðin sem þau fengu voru mjög góð að þeirra sögn og áhuginn í samfélaginu mjög mikill. Þau voru með æfingar fyrir mismunandi aldurshópa og ákváðu fljótlega að vera með æfingar á Eskifirði líka. Það varð að veruleika ári seinna.

„Það geta allir æft karate. Aldur skiptir ekki máli eða líkamlega geta. Við höfum fengið fólk á sextugsaldri sem á í vandræðum með gang og unga krakka með fullt af greiningum og það skiptir ekki máli því allir geta æft saman, bara á sínum forsendum og hraða. En ef ég á að vera hreinskilinn þá myndi ég segja að þrettán ára og upp úr sé mjög hentugur aldur til að byrja að æfa,“ segir Einar. 

Karate á Austurlandi í dag

Nú eru fimm ár liðin frá því þau hófu þetta ævintýri hér á Austurlandi og því áhugavert að skoða hver staðan er í dag. 

„Hún er mjög góð. Öllum hefur farið virkilega fram og nokkrir eru komnir með brúna beltið. Það styttist mjög í að iðkendur fari einn af öðrum að ná svarta beltinu. Við erum mjög ánægð með hópinn,“ segir Guðrún.

Nú eru þau aðeins með æfingar á Eskifirði. „Þetta þróaðist því miður þannig að við þurftum að hætta æfingum í Neskaupstað.

„Við lentum í húsnæðisvanda með æfingarnar þar á sama tíma og Guðrún þurfti að draga sig í hlé tímabundið vegna náms í Reykjavík. Við töldum okkur því ekki hafa tíma til að standa í húsnæðisbrasi og þar sem við búum núna á Eskifirði ákváðum við að færa æfingar alfarið þangað“ segir Einar.

„Við höfum aðgang að mjög hentugri æfingaaðstöðu á Eskifirði og höfum fengið góða styrki frá hinum og þessum í samfélaginu til að kaupa alls konar búnað sem eykur fjölbreytni æfinga,“ segja þau.

Iðkendurnir koma þó alls ekki allir frá Eskifirði. Þó nokkrir koma frá Norðfirði og Reyðarfirði og að mati þjálfaranna er skemmtilegra þegar allir æfa saman. Það skín í gegn þegar talið berst að skjólstæðingum þeirra hvað þau er ánægð með hópinn og stolt af honum. 

„Það er gaman að sjá þegar hópurinn hefur tileinkað sér kaizenkai og það virkar. Hópurinn er þá ein heild sem vinnur saman að framförum,” segja þau að lokum.

 

 

 

Guðrún og Einar.

Frá æfingu á Eskifirði.

Myndirnar eru aðsendar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.