Skip to main content

Málþing um norræn tungumál

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. mar 2023 10:03Uppfært 23. mar 2023 10:03

Austurlandsdeild Norræna félagsins á Íslandi efnir til málþings um stöðu norrænu tungumálanna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í dag undir yfirskriftinni „Til hvers Norðurlandamál?“


Formaður Norræna félagsins á Íslandi, Hrannar B. Arnarson, opnar málþingið með erindi um norrænt samstarf og tungumálin, þar sem hann veltir fyrir sér hvort við séum á réttri leið og ekki leikur vafi á að full ástæða er til að velta þeirri spurningu fyrir sér.

Auk erindis Hrannars eru á dagskrá erindi sem snerta yfirskrift málþingsins með ólíkum hætti. Þessi erindi flytja Guðrún Ásta Tryggvadóttir, dönskukennari á Seyðisfirði, Sandra Ösp Valdimarsdóttir, dönskukennari á Egilsstöðum og Vibeke Lund sem er danskur sendikennari á Austurlandi á þessu skólaári.

Í lokin verða pallborðsumræður, þar sem gefst tækifæri að ræða efni þingsins og skiptast á skoðunum um efni fundarins frá ólíkum sjónarmiðum.

Málþingið er haldið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og stendur yfir frá kl. 16:30 til 18:30. Að því loknu verður hægt að njóta lifandi tónlistar með norrænu ívafi í Tehúsinu á Egilsstöðum. Þar koma fram Björt Sigfinnsdóttir, Jón Hilmar Kárason, Guðrún Adela Salberg Dánjalsdóttir og Öystein Gjerde. Enginn aðgangseyrir er á viðburðina.

Mynd: Austurbrú