„Mætti halda að við hefðum verið að bíða eftir göngunum”

„Unnið verður með kveikjur, bæði að styttri og lengri verkum," segir Arnaldur Máni Finnsson, umsjónarmaður höfundasmiðjunnar Okkar eigin sem haldin verður í Neskaupstað um helgina. 

 

Undanfarin ár hefur Okkar eigin-smiðjuverkstæðið staðið fyrir vinnuhelgum í leikritun, útvarpsgerð og skrifum á Héraði en færir sig nú um set niður á firði. „Það mætti halda að við hefðum verið að bíða eftir göngunum, en það er nú tilviljun að fyrsta helgin hittir á opnunarhelgina,“ segir Arnaldur Máni, en útgangspunktur smiðjunnar er nokkuð opinn, þó áherslan sé enn á ritun texta og leiðir til að flytja hann á sviði eða öðru formi.

Leiðbeinandi verður leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson ásamt samstarfsfólki úr sviðslistahópnum Hér er enginn. Hópinn skipa auk Rúnars, sviðslistafólkið Soffía Bjarnadóttir skáld og myndlistarmennirnir Ingibjörg Magnadóttir og Sigtryggur Berg Sigmarsson. „Námskeiðið er skipulagt með þeim hætti að því verður fylgt eftir með annarri helgi seinna í nóvember, auk helgar í febrúar á næsta ári,” Arnaldur Máni.


Hópur listamanna sem vinnur á jaðri textaleikhúss

„Hér er enginn, er magnaður hópur listamanna úr tilraunakenndari átt leikhússins. Rúnar hefur unnið með okkur í gegnum flestar smiðjurnar hingað til sem hafa verið fókuseraðar á sviðsverk, og ekki betri mann hægt að fá í svona vinnu,“ segir Arnaldur, en nýlundan í ár að hans sögn er sú að bæði sé þáttakendum frjálst að mæta til að vinna að sínum eigin skrifum, án þess að það sé beint verið að troða því upp á svið um leið, sem og setja markið á nokkrar dagsetningar til að kreista uppúr sér verk fyrir ákveðin leikhóp.


Fullorðinssýning í desember og áframhald á næsta ári

Leikfélag Norðfjarðar verður með skemmtikvöld, fullorðinssýningar í desember þar sem eru flutt stutt leikverk og er gert ráð fyrir því að Okkar eigin Nobb nái tveim vinnuhelgum fyrir skiladag á verkum í þá dagskrá.

„Það er því tilvalið ef fólk hefur gengið með hugmynd að stuttu skörpu verki, eða vill láta reyna á það hvort slíkt fæðist í svona smiðju, að skella sér bara með okkur í þetta ferðalag á helginni,“ segir Arnaldur. Leikfélag Verkmenntaskóla Austurlands nýtir smiðjurnar einnig fyrir Listaakademíu sína og vinnur að verki til uppsetningar í vor, auk þess sem þátttakendur í Nobbinu fá innsýn í vinnuferli „Hér er enginn“-hópsins sem vinnur nú að verki sem stendur til að setja upp í Reykjavík í vor.

Verkefnið er unnið með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Austurlands og í samstarfi við menningarmiðstöðvar á svæðinu. Nánari upplýsingar gefur Arnaldur Máni í síma 822-8318 og skráningar fara fram gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar