„Maður þurfti alveg að halda kúlinu“

„Ég fékk að prófa að æfa með nokkrum félögum en Breiðablik stóð uppúr, æfingasvæðið er stórt og öll umgjörð til fyrirmyndar,“ segir Héraðsbúinn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, sem er tvöfaldur meistari eftir sumarið með meistaraflokki kvenna í Breiðablik og er á leið til Armeníu með U-19 liði kvenna.


Áslaug Munda æfði fótbolta með Hetti á sínum yngri árum en spilaði svo með Völsungi á Húsavík árin 2016-2017.

„Ég vissi að ég þyrfti að taka skrefið einhverntíman og því fyrr því betra var mér sagt,“ segir Áslaug Munda sem flutti til Reykjavíkur í vor þar sem hún býr hjá móðurbróður sínum og fjölskyldu, en hún er á öðru árið við Menntaskólann í Kópavogi.

„Það tók á að breyta til og æfingarnar eru miklu erfðari og hraðari en ég hafði vanist. Ég byrjaði inná í fyrsta leik og var mjög stressuð, enda fyrsti leikurinn minn í efstu deild með einu besta liðinu á Íslandi! Svo bara kom leikur eftir leik og ég ýmist byrjaði inn á eða á bekknum,“ segir Áslaug Munda.

„Það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað“
Breiðablik sigraði í Mjólkurbikarkeppninni um miðjan ágúst eftir 2-1 sigur gegn Stjörnunni. „Það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað, að vera á Laugardalsvelli innan um fullt af fólki og lyfta risastórum bikar, það var alveg magnað,“ segir Áslaug Munda, en liðið tryggði sér svo sigur í Pepsi-deildinni fyrir nokkrum dögum og þar með Íslandsmeistaratitilinn 2018 með því að leggja Selfoss á Kópavogsvelli með þremur mörkum gegn einu. Þess má geta að Heiðdís Lillýardóttir frá Egilsstöðum er einnig í liðinu.

„Það tók á að skipta um umhverfi“
„Sumarið hefur verið enn meiri upplifun en ég hefði getað ímyndað mér, ég áttaði mig ekki á því hvað þetta væri allt saman stórt. Það er líka mikið meiri alvara í boltanum hér en heima, maður þurfti alveg að halda kúlinu. Sumarið hefur gefið mér mikið sem fótboltamanni en einnig sem einstaklingi. Það tók á að skipta um umhverfi og kynnast nýju fólki, ég varð að vera opin og jákvæð en ekki loka mig í einhverri skel. Ég fór líka bara einu sinni heim til mömmu og pabba í allt sumar,“ segir Áslaug Munda.


Stefnir á A-landsliðshópinn
Ekki nóg með velgengnina með Breiðabliki þá var Áslaug Munda valin í U-19 lið kvenna fyrir einni og hálfri viku. Hennar fyrsta verkefni verður að fara með liðinu til Armeníu eftir nokkra daga í undankeppni fyrir EM 2019. Áslaug Munda á ekki í neinum vandræðum með að svara því hvert hennar stóra markmið í boltanum er; „Mig langar að komast í A-landsliðshópinn einhvern tíman.“

Ljósmynd: Eva Björk

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar