„Maður telur sig alltaf alveg ósigrandi“

„Ég fann að ég var ekki lengur með þá stjórn sem ég vildi hafa og að eitthvað var að klárast af birgðunum. Ég náði sem betur fer að átta mig fljótt á því hvað væri að gerast en það er ekki alltaf sem maður fær viðvörun um það,“ segir Reyðfirðingurinn Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, um tímann sem hún stóð á barmi kulnunar eftir langa og stranga vinnutörn. Ásta Kristín var í opnuviðtali síðasta Austurglugga.


Ásta Kristín er viðskiptafræðingur að mennt og hefur alltaf sett markið hátt og lagt hart að sér í vinnu. Eftir að hafa starfað lengi sem fyrirtækjaráðgjafi hjá fyrirtækjum og stofnunum í Fjarðabyggð, sem og í sínu eigin ráðgjafafyrirtæki sá hún draumastarfið auglýst um áramótin 2015/16; framkvæmdastjórastöðu fyrir Íslenska ferðaklasann. Hún sótti um ásamt 75 öðrum. Við tók langt og strangt umsóknarferli þar sem hún var talin hæfust allra og flutti hún með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur í kjölfarið.

„Ég var alltaf brjálæðislega ákveðin í því að þetta væri starf sem ég gæti sinnt alveg eins vel og hver annar. Mér þótti þetta mikil áskorun, sérstaklega þar sem klasinn var nýlega stofnaður, enginn hafði áður gegnt stöðu framkvæmdarstjóra og því mitt að móta starfið og vettvanginn í samstarfi við öfluga aðila sem stóðu að klasanum. Einnig þótti mér hugmyndafræðin spennandi, að vinna með svo fjölbreyttum fyrirtækjum, ekki bara í ferðaþjónustu heldur einnig verkfræðistofum, hugbúnaðarfyrirtækjum og bönkum, svo einhver dæmi séu nefnd.“

„Ég var oft búin að ganga nærri mér“
Ásta Kristín segir að um leið og tíminn hjá Íslenska ferðaklasanum hafi verið spennandi, lærdómsríkur og skemmtilegur hafi álagið einnig sagt til sín. „Allt þar til í apríl síðastliðinn var ég eini starfsmaður klasans og þó svo ég væri með frábæra tíu manna stjórn og stjórnarformann er það takmarkað hvað einn starfsmaður getur áorkað miklu. Ég var oft búin að ganga nærri mér, var alltaf á vaktinni, með símann og póstinn opinn,“ segir Ásta og bætir því við að ekki hafi mátt miklu muna síðustu áramót að hún hefði lent harkalega á hinum svokallaða „vegg“.

Maður telur sig alltaf alveg ósigrandi. Ég hafði í einfeldni minni haldið að ekki væri hægt að brenna út ef það væri gaman í vinnunni. Það virkar ekki þannig og ég var bara búin að gera of mikið, það kláraðist bara allt,“ segir Ásta en ástandið kom henni algerlega í opna skjöldu. „Ég sat bara í bílnum mínum fyrir utan búð klukkan fjögur á föstudegi. Ég komst ekki út, ég bara fraus. Það var engin ástæða, ekki neitt, ég bara gat ekki hreyft mig. Svo sat ég þarna undir stýri og hágrét eins og yfirgefið ungabarn.“

Nýjar vinnureglur
Ásta greip strax í taumana, talaði bæði við fjölskyldu og vini, sem og vinnuveitanda. „Ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði stappað niður fæti, bitið á jaxlinn og haldið áfram eins og oft áður. Ef ég hefði beðið einn dag eða meira hefði ég sannfært sjálfa mig um að þetta væri nú meiri helvítis aumingjasakapurinn, að þarna úti væri nú fólk með alvöru vandamál og ég skildi nú aldeilis girða mig í brók og halda áfram!

Við verðum að vera miklu duglegri að tala og greina frá því hvernig okkur líður en svona gerist einmitt þegar maður á síst von á því. Svo fæ ég alveg ógeð þegar fólk segir mér að ég sé dugleg. Við erum öll dugleg en það er ekki eftirsóknarvert að vera svo duglegur að við drepum okkur úr álagi einn daginn. Ég ætla svo sannarlega ekki að vera svo dugleg að ég sé alltaf á vaktinni og endi bara með því að leggjast í rúmið og geta ekki staðið upp aftur. Við verðum vera meðvituð, taka í handbremsuna og líta upp,“segir Ásta sem setti sér nýjar vinnureglur í kjölfarið.

„Ég opna tölvuna aldrei eftir klukkan átta á kvöldin og stefni á að gera það ekki eftir að ég kem heim úr vinnu. Fyrstu tvö árin í starfi brást ég alltaf við og svaraði tölvupóstum allan sólarhringinn, skrifstofan mín var aldrei lokuð. Með auknum þroska áttar maður sig á því að heimurinn ferst ekki þó ekki sé svarað fyrr en á morgun en þetta er þó ákvörðun. Þó ég hafi sett mér ákveðin markmið um að segja helst alltaf já og takast á við áskoranir er mjög mikilvægt að velja já-in vel því fólk vill ganga á lagið og biðja um ansi margt. Það er því mitt að forgangsraða og finna hvort erindin séu þess eðlis að þau falli að mínum gildum og ef svo er skorast ég auðvitað ekki undan. Ég er líka að reyna að takmarka símanotkunina og er farin að skammta mér tíma en ég hef svo sannarlega ekki verið fyrirmyndin á heimilinu hvað það varðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.