Lyktin ekki allra en börnin hugfangin allan tímann

Þegar Ólöf Þóranna Hannesdóttir, myndmenntakennari í Nesskóla, óskaði eftir kuðungum og skeljum sem börnin gætu teiknað eftir fékk hún betri viðbrögð en hún átti von á. Eitt foreldrið, Ásgeir Jónsson, kom þá færandi hendi með kynstrin öll af mismunandi nýveiddum sjávardýrum.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin var af Guðrúnu Smáradóttur umsjónarkennara, var lyktin ekki að skapi allra í bekk 2. GS þegar kom að þeim að skoða dýrin en börn í öðrum bekkjum fengu líka að komast í návígi við þessar kynjaverur hafsins. Sjálf segir Ólöf Þóranna að lyktin hafi ekki komið í veg fyrir að börnin hafi verið hugfangin allan tímann.

„Það er nú ekki oft sem við fáum svona sjávardýr sem börnin geta séð með berum augum. Enda voru þau velflest hugfangin af jafnvel þó lyktin hafi sumum ekki þótt spennandi. Þetta voru ýmsar tegundir sem við fengum að sjá og þeim fannst þetta öllum mjög merkilegt. Mjög skemmtileg stund og allt vakti þetta mikla forvitni og umtal þeirra á milli.“

Ólöf hefur nú þegar þurrkað og hreinsað hluta dýranna og ætlar að nota formin í myndmenntarkennsluna í framtíðinni.

„Þannig verður þetta dálítil blanda af myndmennt með sjálfbærni að leiðarljósi. Börnin læra myndmennt en jafnframt um dýrin í sjónum og það var dálítið gaman að því að þessi dýr voru öll töluvert stærri en þau sem börnin hafa hugsanlega séð eða fundið í fjörunni heima. Það er alltaf jákvætt að vita aðeins um dýralífið í kringum sig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.