Lundinn kom að kvöldi skírdags

Rúm vika er frá því að lundinn settist upp í Hafnarhólmann á Borgarfirði. Það gerði hann að kvöldi skírdags. Útlit er fyrir að heldur færri heimsæki fuglinn í hólmanum í ár heldur en síðustu ár.

„Það veltur mikið á árferðinu og veðrinu hvenær lundinn sest upp. Magnús Þorsteinsson, bóndi í Höfn, sagði að hann kæmi á bilinu 1. – 15. apríl og skráði það samviskusamlega hjá sér.

Ég tók meðaltalið af því og segi að hann komi þann sjöunda klukkan hálf átta,“ segir Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps.

Í ár kom lundinn að kvöldi skírdags, fimmtudagsins 9. apríl, samanborið við þann sjötta í fyrra. „Fuglarnir setjast fyrst upp undir kvöldið, þeir komu fljúgandi milli klukkan sex og átta þarna um kvöldið. Lundinn hvarf síðan í tvo daga en ég sé að hann er byrjaður að róta upp og gera sig kláran.“

Fyrstu dagarnir eftir komuna fara í tilhugalíf fuglanna. Hvert par eignast eitt egg sem fuglarnir skiptast á að liggja á. Fuglarnir fljúga síðan af landi brott upp úr verslunarmannahelgi. „Lundinn stoppar í um 100 daga, ég segi að hann fari klukkan tvö þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi,“ segir Jón.

Undanfarin ár hafa Borgfirðingar tekið formlega á móti lundanum með samkomu í Hólmanum að kvöldi sumardagsins fyrsta. Ekki er útlit fyrir að neitt verði af því í ár vegna samkomubanns. Þá er útlit fyrir að talsvert færri ferðamenn heimsæki lundabyggðina í ár vegna covid-19 faraldursins en verið hefur en ríflega 45 þúsund manns fóru upp í hólmann á síðasta ári.

Nýtt aðstöðuhús fyrir svæðið er nánast tilbúið. Auglýst var eftir rekstaraðila fyrir það í vetur og er verið að semja um reksturinn núna.

En þrátt fyrir erfiðan vetur á Borgarfirði og síðan heimsfaraldur segir Jón að lífríkið í firðinum sé í blóma. „Hér hefur verið mikið af sel og fugli. Langtímum saman í vetur var hér fullt af hval, líklega að elta loðnu,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.