Orkumálinn 2024

Lokið við að merkja bústaði Jóns lærða

Rótarýklúbbur Héraðsbúa hefur lokið verkefni sem snýr að því að setja söguskilti nærri þeim stöðum sem Jón lærði Guðmundsson, einn merkasti en jafnframt umdeildasti fræðimaður 17. aldar, bjó á á Austurlandi.

Jón fæddist vestur á Ströndum árið 1574 en kom austur árið 1632, hafandi verið dæmdur í útlegð fyrir á yfirborðinu kukl og galdur, en trúlega frekar fyrir að skaprauna yfirvöldum með skrifum um Spánverjavígin.

Rótarýklúbbur Héraðsbúa ásetti sér árið 2020 að koma upp söguskiltunum og var því lokið í desember þegar síðasta skiltið var sett upp á Hjaltastaðarvegi þar sem beygt er út á hann af þjóðveginum við Laufás í Hjaltastaðaþinghá. Jón bjó lengi vel á Hjaltastað og er þar grafinn.

Skiltin eru tvenns konar, annars vegar smærri skilti við bústaði Jóns, hins vegar stærri skilti við afleggjara af þjóðvegi að bústöðunum. Ærið verk hefur verið að koma öllum skiltunum á sinn stað því Jón leitaði meðal annars skjóls út í Bjarnarey, milli Héraðsflóa og Vopnafjarðar. Að auki bjó Jón, með Sigríði Þorleifsdóttur konu sinni, einnig á Landsenda í Jökulsárhlíð en síðan Gagnstaðahjáleigu og loks Dalaseli í Hjaltastaðaþinghá.

Upplýsingar á skiltunum eru bæði á ensku og íslensku. Við þau naut klúbburinn aðstoðar bæði Vegagerðarinnar og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs en líka einstaklinga á borð við Þórhall Pálsson sem hannaði þau og Hjörleifs Guttormssonar sem veitti ráðgjöf en hann hefur um árabil barist fyrir að halda nafni Jóns lærða á nafni á Austurlandi.

„Með samstilltu átaki allra þessara aðila, sem hér er þakkað, hefur nú því marki verið náð að upp eru komin níu söguskilti um slóðir og arf Jóns lærða á Austurlandi, skilti sem varðveita hluta af menningarsögu okkar og stuðla að aukinni ánægju og þekkingu þeirra sem hér búa og gesta okkar,“ sagði Stefán Þórarinsson, sem leiddi verkefnið fyrir hönd Rótarýklúbbsins, við afhjúpunina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.