Lokasýning Skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð um helgina
Sex ungir einstaklingar sem unnið hafa að hinum ýmsu verkum undir hatti Skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð í sumar sýna verkin öll á lokasýningu hópsins um helgina.
Sýningin er á besta stað í Templarahúsinu á Fáskrúðsfirði og stendur yfir sömu daga og bæjarhátíðin Franskir dagar fara þar fram. Hún opnar á morgun föstudag klukkan 16 og verður opin milli 12 og 16 laugardag og sunnudag.
Þar sýna þau Anna Karen Marinósdóttir, Helena Lind Ólafsdóttir, Kormákur Valdimarsson, María Rós Steindórsdóttir, Sara Rut Magnadóttir og Stefán Ingi Ingvarsson. Verk hópsins vægast sagt fjölbreytt. Anna Karen sýnir vídeóverk, Helena Lin dúkristur og skúlptúra, Kormákur býður upp á myndskreytt ljóð með tónlistarsetti, Sara Rut ritunarverk um dýr í dýragörðum og Stefán Ingi sýnir olíumálvert sem sýna mismunandi stig meðvitundar. Síðast en ekki síst ætlar María Rós að sýna rafrænar teikningar af gæludýrum og gefst eigendum gæludýranna sem hún teiknaði kostur á að fá ókeypis afrit ef þau sækja sýningu hópsins.
Templarahúsið á Fáskrúðsfirði. Þar geta áhugasamir rekið inn nefið og skoðað lokaverkefni þátttakenda í Skapandi sumarstörfum þetta árið. Mynd Fjarðabyggð.