Lokahnykkur Daga myrkurs um helgina

Fáum dylst líklega að hin rammaustfirska hátíð Dagar myrkurs hófst fyrr í vikunni og stendur fram á sunnudaginn en þetta er í 23. skiptið sem hátíðin atarna er haldin.

Sem endranær er fjölmargt forvitnilegt í boði fyrir gesti og gangandi nánast í öllum kjörnum fjórðungsins.

Svo eitthvað sé tíýnt til væri ráð að bregða sér í sjósund og hlýja sér við varðeld í kjölfarið á Vopnafirði í kvöld en það líka hægt að skottast í kvöldsund í Selárlaug fram eftir kvöldi ef kaldur sjórinn heillar ekki. Göngugarpar á Vopnafirði fá líka sitthvað fyrir snúðinn á sunnudaginn kemur þegar farið verður í sérstaka Vitagöngu.

Lengi hafa sögusagnir verið uppi um að Skála-Brandur haldi sig til á loftinu í Löngubúð á Djúpavogi. Nemendur í Djúpavogsskóla hafa stúderað sögur af kappanum og ætla að glæða þær lífi með aðstoð tækninnar frameftir í dag. Á morgun er ráð fyrir fyrir hreystimenni að taka þátt í Faðirvorahlaupinu í sama bæjarfélagi.

Í Breiðdal fer fram Allraheilagramessa í Heydalskirkju á sunnudaginn og þar gefst jafnframt tækifæri til að láta gott af sér leiða gegnum verkefnið Jól í skókassa.

Stórgóð listsýning er sett upp í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og opnar formlega á morgun. Þar um að ræða sýninguna Lista-Ljós í austri sem aftur tengist listahátíðinni List án landamæra. Sýningin á mætavel við því þátttakendur hafa verið að skoða samspil ljóss og skugga og unnið að listsköpun með það að markmiði.

Enginn verður heldur svikinn af Afturgöngunni á Seyðisfirði síðdegis í dag en sú er á vegum Tækniminjasafns Austurlands. Það eitt að arka gegnum myrkvaðan bæinn er kostuleg upplifun og ekki er heita kakóið sem boðið er upp á í göngulok að skemma fyrir.

Jólalest Tuborg er velþekkt fyrirbæri en jólalest KHB öllu nýrra fyrirbæri. Annað kvöld verður fríkkað upp á góða dráttarvél með eftirvagni á Borgarfirði eystra og þar boðið upp á jólabjór KHB. Á Blábjörgu verður ennfremur hægt að komast í bjúgnaveislu með gamla laginu.

Er þá fátt eitt nefnt sem í boði er þessa lokadaga hátíðarinnar en alla dagskrá má finna á vefnum Dagar myrkurs á Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.