„Ljóðin eru mörg mjög nærgöngul“

„Eins og titill bókarinnar ber með sér þá ræ ég á mið tímans og hugleiði hvað hefur sterkust tök á honum í mínu lífi,“ segir Steinunn Ásmundsdóttir, sem sendi nýverið frá sér ljóðabókina Áratök tímans.


Bókin var gefin út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi, sem Steinunn segir eina öflugasta ljóðabókaútgáfa landsins og hefur starfað í átján ár. Áður hafa komið út eftir Steinunni þrjár ljóðabækur, sú síðasta árið 1996.

Steinunn er fædd árið 1966 í Reykjavík. Segir hún ferðalög innanlands og vítt um veröldina, ljóðagerð, blaðamennsku, störf að náttúruvernd og landvörslu hafa verið helstu viðfangsefni ungdómsáranna, allt fram til ársins 1996. Þá settist hún að á Egilsstöðum og vann sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins á Austurlandi í hartnær áratug og tók svo við ritstjórn Austurgluggans um nokkurra ára skeið. Hún segist hafa afráðið að draga sig í hlé úr erli fjölmiðlavinnu fyrir nokkrum árum, kyrra líf sitt og leita skáldæðarinnar á ný.

„Vorið 1996 kom ljóðabókin Hús á heiðinni út, en hana skrifaði ég á Þingvöllum sumarið 1995 og fullvann handritið í Þýskalandi um veturinn. Þegar ég kom heim um sumarið fann ég glöggt að ég var orðin þreytt á eilífum flækingi um veröldina og vildi fara að festa rætur á Íslandi. Það höfðaði hins vegar lítt til mín að setjast að í Reykjavík þrátt fyrir að vera fædd þar og alin upp. Þá benti fornvinur minn Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur á Egilsstöðum mér á að gamla Gistihúsið við Lagarfljót stæði autt og væri hentugt til skáldskapariðkunar og varð úr að dr. Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur, leikstjóri og þýðandi með meiru lánaði mér húsið gegn því að ég greiddi hita og rafmagn af því. Amma mín og afi í móðurætt voru bæði af Héraði og ég ágætlega kunnug á þeim slóðum, svo ég lagði land undir fót og flutti haustið 1996 með allt mitt hafurtask austur í þetta gamla óðal frá 1903, sem var orðið nokkuð hrörlegt en hefur nú gengið fagurlega í endurnýjun lífdaga. Þá hafði ég sótt bréflega um vinnu hjá flestum fyrirtækjum á Héraði upp úr símaskránni og þar af fengið fjögur atvinnutilboð, svo ég gat gengið að vinnu vísri þegar ég kom.“

„Nú verður mér allt að ljóði, þau birtast mér hvarvetna“
Steinunn kynntist eiginmanni sínum fljótlega eftir að hún flutti austur, Þorsteini Inga Steinþórssyni og eiga þau tvö börn, Ásmund Mána og Ragnheiði.

„Við keyptum okkur hús í þéttbýlinu. Ég var oft spurð hvort ég væri að skrifa eitthvað þessi árin, en svaraði jafnan að það tæki á að yrkja nýjan lífskafla og öll orka mín færi í það auk blaðamennskunnar, þar sem ég skrifaði auðvitað texta nótt sem nýtan dag. Svo kom að því að ég fékk gjörsamlega nóg af því að vera stöðugt á útkikki eftir fréttnæmum viðburðum líðandi stundar í heilum landsfjórðungi frá hálendi til strandar og ákvað að spyrna við fótum. Fór í skrifstofustarf hjá ríkisstofnun og gat þá farið heim klukkan fjögur og verið heil og óskipt með fjölskyldu minni og það sem ekki er minna um vert, með sjálfri mér. Og þá fann ég að tími væri kominn til að svara þeirri spurningu hvort ég ætti ennþá eitthvað inni hjá skáldgyðjunni, eða hvort tímabært væri að leggja þá hugmynd alveg á hilluna.

Til að gera langa sögu stutta þá kom í ljós að þessi Egilsstaðaár voru mér það sem Matthías Johannessen ritstjóri og skáld sagði mér iðulega á Reykjavíkurárunum að væri hinn hljóði vaxtartími garðsins áður en hann blómstraði. Og nú verður mér allt að ljóði, þau birtast mér hvarvetna. Það er eins og viðtakinn hafi verið ræstur upp á nýtt og ég er óendanlega þakklát fyrir að geta tengt í þessa uppsprettu þannig að mér hverfur oft bæði stund og staður við skriftir. Það gerir mig hamingjusama og er minn sanni kjarni.“


„Augnabliksmyndir eða sögubrot héðan og þaðan úr ævi minni“
Hvernig myndi höfundur lýsa bókinni? "Kaflarnir eru þrír, Heimaland, Útland og Innland. Sá fyrsti lýsir atvikum uppvaxtar- og umbrotaára í Reykjavík, þá taka við ferðalög á ókunnar slóðir og síðasti kaflinn fjallar um heimkomuna og að festa rætur í daglegum veruleika við bakka hins mikla Lagarfljóts.
Ljóðin eru mörg mjög nærgöngul og lýsa upplifun og reynslu sem sest hefur að í mér og mótað persónu mína.“


Útbjó sér samastað fyrir verkin sín
Steinunn setti á laggirnar hugverkavefinn www.yrkir.is haustið 2016. „Þegar ég fór að skrifa aftur var það mitt fyrsta verk að búa mér til vef þar sem ég gæti birt ný hugverk mín þegar mér sýndist, óháð því hvort útgáfufyrirtæki hefðu áhuga á að birta skáldskap minn á prenti. Jafnframt gaf vefurinn mér tækifæri til að safna kerfisbundið saman því helsta sem ég hef skrifað allt frá árinu 1986 og birta á einum stað. Þetta frábæra lén, Yrkir, var ótrúlegt en satt laust og ég snögg að grípa það.

Á Yrki er núna heilmikið efni eftir mig; splunkuný ljóð, áður óbirt ljóð og eldri ljóðabækur, þýðingar á ljóðum á ensku og spænsku og nokkrar þýðingar á ljóðum annarra. Einnig sögur, viðtöl, greinaskrif um aðskiljanleg efni og ljósmyndasafn.

Yrkir er svo bara lifandi hlutur sem getur breyst í eitthvað annað þegar minnst varir. Ein hugmyndin er að gera vefinn að regnhlíf fyrir yrkjandi fólk sem vill frekar birta skáldskap sinn á netinu en í prentuðum bókum. Það liggur inni í framtíðinni. Ég held bara ótrauð áfram að skrifa.“


Hráslagaleg örlagasaga væntanleg
Steinunn er að skrifa skáldsögu sem hún segist þó helst vilja hafa sem fæst orð um. „Ég tel að hún eigi erindi við samtímann og veit frá þeim sem ég hef beðið um að gagnrýna handritið að sagan hreyfir við fólki. Þetta er hráslagaleg örlagasaga og raunar beinlínis hrikaleg.“


Ljóð úr kaflanum Innland:

Þrusk

Gamla húsið við fljótið mátti muna sinn fífil fegri
en þegar búið var að setja mublur og málverk
yfir verstu götin og barokk á fóninn
skein gamla óðalssetrið aftur.

Það var mikið hvísl í þessu húsi;
fótatak og pilsaþytur,
þrusk genginna kynslóða.

Enginn er einn.

Þegar ættmóðirin dó
gengu kýrnar af göflunum
í fjósinu handan götu,
tíminn stóð kyrr
og kötturinn á nálum.

Þetta var viðkunnanlegt hús
og sérstaklega man ég eftir nóttinni
þegar ég sat ein og saumaði vambir,
þótti skil tímans óljós.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.