Litrík listaverk sem hafa róandi áhrif

Listamaðurinn Þór Vigfússon frá Djúpavogi opnar sýningu í Skaftfelli á Seyðisfirði í dag. Sýningarstjóri lýsir verkunum á sýningunni sem einföldum en fjölbreyttum, litríkum og róandi, sem sé list sem eigi vel við Seyðfirðinga á þessum tímum.

„Þór er mínimalisti sem leikur sér og vinnur með grunnatriði listarinnar: form, liti, lögun og ljós. Hann hefur fundið spennandi aðferð til að leika sér með litbrigði og mynda með þeim andstæður gegn öðrum litum og ljósum.

Verkin breytast með hverju verki sem þau fara í og rýmið breytir þeim,“ segir Julia Martin, annar forstöðumanna menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells.

Uppistaðan í sýningu Þórs eru lituð glerlistaverk, en hann notar einnig við og granít í henni. Verkin eru í sterkum litum en endurkast birtunnar kemur sterkast fram í glerverkunum.

„Það er gaman að hafa þessa sýningu á þessum tíma þegar sólin er komin niður í fjörðinn sem þýðir að hið náttúrulega ljós mun aukast smám saman. Það er forvitnilegt að sjá hvaða áhrif það hefur á verkin samanborið við raflýsinguna á kvöldin, ekki síst því allt ljós hefur lit. Áhrifin af endurkastinu koma kannski hvað sterkast í gegn þegar maður reyndir að taka mynd af verkunum án endurkasts, það er eiginlega ómögulegt,“ segir Julia.

Hún segir sýninguna líka henta vel á þessum tímum þar sem Seyðfirðingar eru enn að ná áttum eftir skriðuföllin í desember.

„Verkin eru einföld og stöðug þannig þau hafa róandi áhrif. Þau eru heldur ekki niðurdrepandi því þau eru litrík og því skemmtilegt að skoða þau. Þess vegna vonumst við til að þau gefi fólki færi á að setjast niður og finna sinn innri frið og öruggi.“

Skaftfell stendur sterkt

Skaftfell fór ekki varhluta af skriðuföllunum í desember. Önnur af fyrstu skriðunum, sem féllu síðdegis þriðjudaginn 15. desember, lentu utan á húsinu. „Húsið sjálft virðist hafa sloppið vel. Það varð smá vatnstjón á neðstu hæðinni en annars virðist húsið hafa haldið að mestu. Við vorum heppin því vatn umlék húsið. Bjórgarðurinn framan við Skaftfell er þó trúlega ónýtur, það kemur betur í ljós þegar við hreinsum hann.

Þetta var hins vegar áminning fyrir okkur um að við þurfum að hugsa vel um þetta gamla hús því svona atburðir geta skemmt undirstöðurnar. Það hefur sýnt sig að því traustari sem húsin eru því betur þola þau svona álag.“

Finna fyrir miklum hlýhug

Stofnunin hefur fengið fjölda skilaboða víðsvegar að eftir hamfarirnar frá listafólki sem hefur dvalist í gestavinnustofu Skaftfells eða tengst miðstöðinni á annan hátt. „Við höfum fengið mikið af fallegum tölvupóstum þar sem við erum spurð hvort í lagi sé með okkur, húsið og fjörðinn. Fólk lýsir áhyggjum sínum af aðstæðum og sýnir okkur samhygð.

Það var sérstaklega gott að fá þessi skeyti fyrstu vikurnar því við fundum að við vorum ekki ein. Það var gott að fá viðbrögð sem sýna að vinnan sem við vinnum skiptir fólk máli og að það tengdist staðnum, þótt það sé ekki hér lengur.

Einhverjir listamenn söfnuðu fé, því þeir vildu hjálpa og það hefur nýst bæði Skaftfelli og fleiri aðilum hér á Seyðisfirði. Ég ber lotningu fyrir þessu listafólki.“

Sýningin stendur til 11. apríl og er opin daglega frá 16:00-21:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.