Lítið fór fyrir landsliðsmanni í Breiðdal

Ábúendur á bænum Hlíðarenda í Breiðdal urðu undrandi í gær þegar þangað barst bréf, stílað á einstakling sem þau könnuðust ekki við að væri búsettur þar. Við eftirgrennslan reyndist maðurinn hafa verið með lögheimili þar síðan í haust. Ekki þarf að fá leyfi hjá eiganda fasteignar til að skrá þar lögheimili.

„Við vissum fyrst af þessu í gær. Pósturinn kom hingað eins og venjulega, nema að þessu sinni með bréf með heimilisfanginu hér, stílað á þennan einstakling,“ segir Gróa Jóhannsdóttir, bóndi á Hlíðarenda.

„Við höfðum samband við Þjóðskrá og þá kom í ljós að hann hafði búið hér síðan í september. Ég spurði hvort við ættum ekki að fá tilkynningu um svona skráningu og fengum þau svör að hana væri mögulega að finna á Island.is. Við fundum hana ekki þar.

Við fengum líka þær upplýsingar að það væri hægt að fylla út eyðublað um tilkynningu þriðja aðila um heimilisfang. Við gerðum það og höfum ekki heyrt neitt meira,“ segir Gróa.

Skráningin virðist vera á misskilningi byggð, sem þó er ekki fullkomlega órökréttur. Maðurinn sem um ræðir heitir Frank Booker, bandarískur-íslenskur körfuknattleiksmaður sem síðasta sumar fékk draum sinn uppfylltan um að spila með íslenska landsliðinu. Booker þessi gekk til liðs við úrvalsdeildarlið Vals í haust, en það er einmitt með heimavöll á Hlíðarenda. „Það er nokkuð óvænt að Breiðdælingar eigi landsliðsmann í körfubolta,“ segir Gróa sem sér skoplegu hliðarnar á málinu.

„Það hefur farið óskaplega lítið fyrir honum, við höfum ekkert orðið vör við hann. Ekkert drippl, engar troðslur,“ segir Gróa og bætir því við að lítið mál væri að útbúa æfingaaðstöðu fyrir Booker í fjárhúsunum ef hann vildi hana.

Slíkar lögheimilisskráningar virðast hins vegar ekki óþekktar. Eftir að Gróa sagði frá á Facebook hafa henni borist fleiri sögur, til að mynda frá ábúanda í Húsavík á Ströndum þar sem allt í einu voru 11 litháískir verkamenn skráðir til heimilis en áttu að vera á Húsavík við Skjálfandaflóa.

„Það dæmi var lagað, en miðað við viðbrögðin sem ég hef fengið þá virðist svona lagað vera nokkuð þekkt,“ segir Gróa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.