List er valdeflandi

„Ég hef tekið mér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina. Eitt af því er að kenna börnum ritlist. Mér finnst frábært að vinna með börnum, finnst þau í rauninni betri útgáfa af mannfólkinu,“ segir Markús Már Efraím, rithöfundur og ritstjóri, en hann kynnti ritlist fyrir nemendum grunnskóla Fjarðabyggðar í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna- og ungmenna á Austurlandi.


Markús kom austur fyrir stuttu til að sinna ritstörfum í Jensenshúsi á Eskifirði en var fenginn til liðs við BRAS vegna reynslu sinnar af starfi með börnum. „Karna Sigurðardóttir hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar vissi að ég hefði kennt börnum ritlist og bauð mér að taka þátt í þessari hátíð sem mér þótti spennandi.“

Markús segir bæði mikilvægt og áhrifaríkt að kynna ritlist fyrir börnum. „Maður getur sett þetta í samhengi við umræðu um læsi barna. Áhugi og þekking á ritlist ýtir undir áhuga barna á bókum sem síðan er jú grunnforsenda læsis. Þess utan eykur þessi þekking lesskilning. Þegar börn læra t.a.m. um uppbyggingu sögu geta þau beitt þeim lærdómi á bækur sem þau eru að lesa og fyrir vikið njóta þau lesturins betur. Þau fá nýtt sjónarhorn á sögur.“

Hann segir ritlist og annað skapandi nám valdeflandi: „Það er mjög mikilvægt fyrir börn að átta sig á því að þau hafa rödd og að einhver sé tilbúinn að hlusta á þau. Þá á ég ekki eingöngu við ritlist heldur alla þá listrænu tjáningu sem þau kjósa sér. Gæti verið tónlist, leiklist eða myndlist. Það að fólk hlusti, taki mark á manni og sýni tjáningunni virðingu, skiptir börn máli. Og þegar fullorðið fólk skapar vettvang fyrir börn svo rödd þeirra geti heyrst verður það mjög valdeflandi fyrir þau.“

„Fimm mínútum síðar er blýanturinn kominn á fullt“
Aðspurður um þýðingu þess að efla barnamenningu í litlum samfélögum eins og víða úti á landi segir Markús að honum hafi reyndar komið skemmtilega á óvart hversu öflugt menningarstarfið sé á svæðinu.

„Það er greinilegt að hér vinnur fólk, t.a.m. kennarar og skólastjórnendur, sem hefur mikinn metnað í þessum málum. Auðvitað er aðstöðumunur ef maður miðar við stærra samfélag eins og Reykjavík. Fólk – bæði börn og fullorðnir – hefur ekki sama aðgang að sérhæfðum kennurum eða listafólki en það er sami krafturinn til staðar og það er forsenda fyrir skapandi samfélagi.

Ég hef ekki haft mikinn tíma á hverjum stað og reyni því að leggja áherslu á grundvallaratriði í ritlist, þ.e. að hvetja þau til dáða, hjálpa þeim að trúa því að öll geti þau sagt og búið til sögur. Ég hef unnið með frábærum krökkum síðustu daga en það er ekki síður gaman að skynja eldmóðinn hjá skólastjórum og kennurum þrátt fyrir aðstöðumuninn sem ég minntist á áðan,“ segir hann og heldur áfram:

„Þegar ég held ritsmiðjur í Reykjavík koma til mín krakkar sem eru sérstaklega að sækja þær vegna eigin áhuga. Hér fyrir austan hef ég fengið til mín börn sem halda að þau hafi hvorki áhuga né getu til að skrifa sögur en komast svo að því að þau geta það svo sannarlega. Mér finnst einstaklega gefandi að fylgjast með þessu. Þau koma inn og segjast ekki fá neinar hugmyndir, að þau kunni ekki að búa til sögur, en fimm mínútum síðar er blýanturinn kominn á fullt og saga að verða til.“

Ljósmynd: Sebastian Ziegler

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.