Lifir sósíalisminn í gegnum SÚN?

Sú var tíð að í sundlauginni í Neskaupstað voru tvær klukkur uppi á vegg. Önnur sýndi staðartímann, hin tímann í Moskvu. Fleiri merki um sterk tengsl Norðfjarðar og Sovétríkjanna voru sýnileg í bænum sem hlaut viðurnefnið Litla Moskva því sósíalistar voru þar ráðandi í bæjarstjórn. Táknmyndirnar hafa síðan horfið ein af annarri en leifar af fyrri tíma finnast þar enn.

„Kommúnismi er ekki tengdur er við jákvæða hluti. En það verður að nýta það jákvæða úr honum. Ég held að það hafi enginn stutt fjöldamorð, það er of einfalt að horfa þannig á málin. En þau eru kannski ástæðan fyrir því að fólk varð viðkvæmt fyrir þessu,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, íbúi í Neskaupstað, í viðtali í tímaritinu Iceland Review.

Í grein í nýjasta hefti blaðsins er farið í heimsókn til Neskaupstaðar og rifjaðir upp tengslin við Sovétríkin, sem byggðust á sölu sjávarafurða þangað og valdatíma sósíalista frá 1946 þar til bærinn sameinaðist í Fjarðabyggð árið 1998.

Í greininni er rifjað upp að fulltrúar bæjarstjórnarinnar hafi farið í heimsóknir til Moskvu og sjálf fór Ingibjörg sem barn í sumarbúðir til Austur-Þýskalands. „Hver sendir 12 ára barn í sex vikna sumarbúðir til Austur-Þýskalands?“ spyr hún í dag og bætir við að dvölin hafi hvorki haft varanleg áhrif á skoðanir hennar né hún orðið fyrir áfalli.

Ingibjörg bendir á að fram að opnun Oddsskarðsganganna árið 1978 hafi Norðfjörður verið einangraður allan veturinn. Þessi mikla einangrun hafi mótað sósíalistahugsunina, allir báru skyldur gagnvart samfélaginu.

Það var líka ábyrgð á fyrirtækjum og stofnunum samfélagsins að sjá um íbúana. „Það var auðvelt að fá vinnu og það var allt gert fyrir þig, einkum ef þú gekkst í flokkinn,“ segir Hákon Guðröðarson, hótelrekandi.

Hákon er þó töluvert gagnrýninn á tíma sósíalistanna í greininni, segir hann hafa þróast upp í að vera bræðralag um að halda eignum og völdum. Það hafi lagt steina í götu frumkvöðla, til dæmis fjölskyldu Hákonar, sem byggði upp Kaupfélagið Fram.

En þótt tímarnir séu breyttir benda bæði Hákon og Ingibjörg að enn eimi af gömlum tíma. Þótt bærinn hafi selt Síldarvinnsluna hafi hluta eignarinnar verið haldið eftir í Samvinnufélagi útgerðarmanna (SÚN) sem láti allan sinn hagnað renna til samfélagsmála innan fjallahringsins. „Sósíalisminn lifir í gegnum SÚN,“ segir Ingibjörg. Hákon bætir við að hann hafi unnið með SÚN að ýmsum menningarverkefnum auk þess sem félagið sé hluthafi í hótelinu hans.

Þá sé ár hvert haldið Kommablót þar sem berist uppdiktuð skilaboð frá þeim kommúnistaleiðtogum sem eftir eru og sungnir séu söngvar kommúnistanna. „Það er ótrúlega gaman, við setjum höndina á bringuna og syngjum sígildu sovésku lögin. En þetta er allt til gamans,“ segir Hákon.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.