„Lifi fyrir ber á haustin“

Þorbjörg Gunnarsdóttir á Egilsstöðum er mikil berjakona sem nýtur þess að fara í berjamó og útbúa góðgæti úr berjunum. „Mér líður afskaplega vel í berjamó, ein með sjálfri mér og hunangsflugunum. Þetta er mín gæðastund.“

Þorbjörg segir haustin snúast mikið um ber en hún sultar og býr til saft úr berjunum en bakar líka, gerir eftirétti og notar berin í matseld. Þorbjörg var í opnuviðtali í síðasta Austurglugga þar sem hún sagði frá berjaástríðu sinni og deildi nokkrum berja uppskriftum. „Þetta er mitt áhugamál, það sem ég lifi fyrir á haustin.

Í venjulegu ári geri ég bláberjasultu, rifsberjahlaup, hrútaberjahlaup, hindberjasultu, rabarbarasultu og krækiberjasaft. Ég tíni ekki í stóra þvottabala, en afurðirnar fylla alveg góða hillu í búrinu mínu. Þannig að við erum líka að safna litlum krukkum allt árið. Þegar ég sýð sultu sýð ég krukkurnar í sér potti um leið, helli sultunni heitri í krukkurnar, fylli þær vel og loka og sný þeim síðan við.  Þá lofttæmast þær og sultan geymist miklu betur fyrir vikið. Svo er að skreyta þær með fallegum miða með nafni og ártali“

Á heimilinu er því jafnan mikið til af berjum og berja afurðum. „Maðurinn minn stríðir mér á því að ég eigi marga árganga af sultu í geymslunni, en eldri árganga af sultu og hlaupi geymi ég og nota í sósur.  Það er mjög gott að setja 1-2 teskeiðar af rifs- eða hrútaberjahlaupi í góðar rjómasósur. Margir kannast við Ritskex partýbollurnar með chili sósunni. Þar nota ég alltaf gamalt rifsberjahlaup og gjarnan sólberjasultu eða bláberjasultu líka,“ segir Þorbjörg. 

 

Rifsberjakjúklingur
Kjúklingabitar
salt og pipar
1 lítill laukur, skorinn
100 - 150 g. rifsber
1 bolli vatn + kjúklingateningur
1-2 tsk púðursykur
1 dl rjómi
lerkisveppir

Kjúklingurinn steiktur á pönnu, kryddaður m/salti og pipar.  Laukur og sveppir sett með á pönnuna eftir svolitla stund. Vatni hellt yfir, teningur mulinn yfir og púðursykur. Soðið þar til kjúklingurinn er eldaður, þá er rjóma hellt yfir og gjarnan þykkt m/sósujafnara. Smakkað til og kryddað betur m/salti og pipar eftir þörfum.

Mjög sniðugt að frysta rifsber í mátulegum skömmtum til að gera þennan rétt yfir veturinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.