Vorveður á TTT móti við Eiðavatn

Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi hélt árlegt TTT-mót í Kirkjumiðstöðinni við Eiðavatn á dögunum. Mótið fór vel fram að venju að sögn sr. Erlu Bjarkar Jónsdóttur, héraðsprests á Austurlandi.

Mótið sóttu 66 börn á aldrinum tíu til tólf ára og komu þau víðs vegar að frá Austurlandi.  „Mikið líf og fjör var á mótinu í vorveðri og einstakri nálægð við náttúru og fegurð Eiðavatns. Þemað í ár var Nýtum kosti okkar til góðra verka og var vísað til texta Filippíbréfsins 4.13, en þar stendur: Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir,“ segir Erla Björk

Mótinu stýrðu þau Erla Björk Jónsdóttir héraðsprestur og Hákon Arnar Jónsson íþróttafræðingur, en hann er mikilreyndur á sviði æskulýðs- og sumarbúðastarfs kirkjunnar. „Börnin nutu sannarlega samvistarinnar við Hákon enda mikill snillingur þar á ferðinni. Prestar, leiðtogar, ungleiðtogar og þeir foreldrar sem fylgdu hópunum eftir til aðstoðar nutu samvistanna ekki síður en börnin. Mótið var því líka gefandi inn í starf Farskóla leiðtogaefna kirkjunnar en hluti af þeim ungleiðtogum sem lagt hafa stund á nám í leiðtogafræðum hér á Austurlandi fékk þar dýrmæta reynslu af störfum og ábyrgð á vettvangi,“ segir Erla Björk.

Sr. Erla Björk segir starf Æskulýðssambands kirkjunnar á Austurlandi, ÆSKA, blómstra ár frá ári. „Stjórn félagsins hefur lagt mikinn metnað í starfsemina. Mig langar að þakka það gróskumikla starf sem unnið er á vettvangi æskulýðsstarfs á Austurlandi og þau tækifæri sem unnist hafa til þess að skapa skemmtilega viðburði og eftirminnilegar samverustundir í kirkjunni okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.