Leitast eftir að komast í samband við ættingja sína úr Eiðaþinghá

Gunnar Sigurður Hallsson, Dani af íslenskum ættum, hefur að undanförnu varið frítíma sínum við að rekja ættir sínar. Sú leit hefur leitt hann að bænum Ásgeirsstöðum í Eiðaþinghá og upplýsingum um að hann eigi fjölda skyldmenna á Fljótsdalshéraði sem hann hefur nú áhuga á að kynnast nánar.

„Ég stunda róður í Birkeröd og tveir félagar mínir úr klúbbnum þar hafa líka verið að grúska í sinni fjölskyldusögu. Þeir vöktu áhuga minn.

Ég hætti síðan að vinna í fyrra og fannst þá rétti tíminn til að hella mér út í þetta,“ segir Gunnar Sigurður.

Afi hans og alnafni var íslenskur, fæddur á Ásgeirsstöðum í Eiðaþinghá. Hann fæddist í júlí árið 1889 en fluttist 24 ára til Danmerkur til að stunda búnaðarnám en gerðist síðar heildsali með síld og efnaðist ágætlega fyrir seinni heimsstyrjöldina en hann byggði reisulegt hús í úthverfi Danmerkur sem kallaðist Clupea, sem er hið lattneska ættarheiti síldarinnar.

„Afi lifði til ársins 1979 og ég er fæddur árið 1954 þannig ég kynntist honum ágætlega en þá hafði ég ekki áhugann á fjölskyldusögunni til að spyrja hann að því sem mig langar nú að komast að,“ segir Gunnar Sigurður.

Með aðstoð Ættfræðifélagsins komst hann að því að Gunnar Sigurður eldri hefði átt systur, Önnu Þuríði Hallsdóttur, sem var sex árum yngri, fædd 1894 en látin 1989. Gunnar Sigurður og Anna Þuríður voru meðal fimm barna Katrínar Jónsdóttur og Halls Oddsonar sem komu úr Austur-Skaftafellssýslu. Eitt þeirra dó nokkurra mánaða gamalt en tveir bræðranna drukknuðu 23 og 32 gamlir með 14 ára millibili.

Anna Þuríður eignaðist á árunum 1917-1935 níu börn með manni sínum Birni Árnasyni. Eitt þeirra lifir enn og býr á Egilsstöðum. Af börnum Önnu og Björns eru komin stór ættleggur, 22 barnabörn, sem Gunnar Sigurður yngri hefur hug á að athuga hvort þau vilji tengjast honum og veita honum frekari upplýsingar um ættarsöguna.

„Ég hef mikinn áhuga á að fræðast um þær aðstæður sem afli ólst upp við á Íslandi. Ég hef fundið handskrifuð blöð frá honum þar sem hann lýsir því að það hafi ekki verið neinn skóli, bara kennari sem ferðaðist milli bæja.

Síðan segir hann frá því að fjölskyldan hafi þurft að fara til Seyðisfjarðar til að selja afurðir af býlinu og kaupa vistir. Það var fari tvisvar á ári, kannski aftur fyrir jólin, og keypt inn til næstu sex mánaða,“ segir Gunnar Sigurður um nafna sinn.

Gunnar Sigurður vann áður við að selja danska tækniframleiðslu en hefur aðeins einu sinni áður komið til Íslands. „Ég fór með fjölskylduna árið 2004 og heimsótti þá Suður- og Austurland. Þá hafði ég takmarkaðan áhuga á fjölskyldusögunni. Nú er ég farinn að huga að því að koma aftur til að heimsækja bæina þar sem forfeður mínir bjuggu og vonandi heimsækja ættingja mína líka,“ segir hann að lokum.

Hafa má samband við Gunnar á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.