Leitar að upplýsingum um kaupmanninn Thomsen

Kaupmennirnir Peter Christian Petræus og Thomas Fredrich Thomsen stofnuðu fyrstu verslunina á Seyðisfirði árið 1848. Langlangafabarn Thomsen leitar nú upplýsinga um sögu ættarinnar.

Skömmu eftir stofnunina seldi Petræus sinn hlut til T.F.Thomsen, sem rak verslunina til ársins 1859. Þá var hún seld til Bretans Henderson sem kallaði verslunina New Glasgow.

T.F.Thomsen var ættaður úr Slésvík og var bróðir Dethlef Thomsen eldri, sem stofnaði verslun í Reykjavík 1835. Um aldamótin hét sú verslun Thomasens Magasiner og var ein af stærstu verslunum í landinu. Dethlef Thomsen druknaði og hvarf þegar póstskipið Sæljónið sökk árið 1857.

Árið 1856 opnaði T.F.Thomsen verslun á Tvöroyri í Færeyum, þar sem afkomendur hans enn búa. Í einu af gömlu pakkhúsunum við höfnina á Tvøroyri hefur Rókur Tummasarson, langalangafabarn T.F.Thomsen aðsetur. Þar hefur hann opnað lítið sögusafn um verslunina hjá Thomsenættini. Safnið kallast Pakkhús 5 og hægt er fylgjast með á: www.facebook.com/pakkhus5

Mikill áhugi á sögu

Rókur Tummasarson segist hafa mikinn áhuga á sögu ættarinnar og að segja frá henni. Honum hafi því miður ekki enn tekist að safna upplýsingum um langalangafa sinn frá þeim tíma sem hann var verslunarmaður á Seyðisfirði.

„Út frá skjölum sem ég hef sankað að mér og það sem ég finn á netinu, t.d. á tidarrit.is og heimildir.is er hægt að gera sér mynd af því hvað Thomsen fékkst við á Íslandi og einnig að uppgötva að hann ferðaðist víða á Austur- og Norðurland sem kaupmaður.

Hann verslaði við bændur, sýslumenn, presta og alþýðufólk á landssvæðinu frá Höfn í Hornafirði og norður í Skagafjörð. Sem kaupmaður fékkst hann ekki bara við að kaupa og selja. Hann flutti til dæmis peninga til íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn og einnig til Jóns Sigurðssonar fyrir áskriftir að Nýjum félagsritum.

Íslendingar hafa mikinn áhuga á sögu eins Færeyingar, svo ég get ekki ímyndað mér annað en að hægt sé að finna til dæmis hluti og upplýsingar um manninn sem ég þekki ekki en vil feginn fá að vita meira um,” segir Rókur.

Leitar heimilda um veiðar

Eitt af því sem Rók langar til að vita er hvort einhver hafi upplýsingar um hvort T.F.Thomsen hafi fengist við fiskveiðar við Ísland þann tíma sem hann rak verslunina á Seyðisfirði. Árið 1856 keypti hann seglskútu sem var umbreytt í fiskveiðibát. Getgátur eru uppi um hvort Thomsen hafi farið til veiða á skútunni við Austurland. Um þetta skortir þó áreiðanlega heimildir.

Einnig vill Rókur gjarnan heyra frá fólki sem hefur upplýsingar um vinnu Thomsen í námunni á Helgustöðum í Reyðarfirði þar sem hann starfaði við vinnslu silfurbergs á tímabilinu 1850-1855.

Hægt er að hafa samband Rók í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.