Leita elds fyrir dreka í Fljótsdal

„Þarna er um tíu staði að ræða, það þarf að leysa gátu á hverri og einni stöð til að halda áfram og ég myndi segja að þetta henti fjölskyldum og börnum allt niður í sex ára aldur,“ segir Brynjar Darri Sigurðsson Kjerúlf, hönnuður.

Brynjar Darri er höfundur nýs ratleiks sem Skriðuklaustur hefur látið vinna og ber heitið Leitin að týnda eldinum en hugmyndin er að sýna hvernig einföld leikjagerð getur nýst við að miðla staðbundinni sögu og menningu. Aldís Anna Þorsteinsdóttir myndskreytti leikinn en viðburðurinn hefst á morgun föstudag og stendur út helgina.

Þema leiksins er landvættur Austurlands sem er drekinn nema hér hefur hann misst þann eiginleika að spúa eldi eins og fornum drekum var tamt. Ratleikurinn gengur út á að leysa tíu þrautir sem finnast um allan Fljótsdal og þannig færa drekanum eldinn á ný. Sjálfur verður höfundurinn á staðnum ef einhver verður hjálpar þurfi.

„Fólk þarf að hafa app sem kallast Turfhunt uppsett í símum sínum og á korti í því má finna Leitina að týnda eldinum og með appinu er hægt að þræða sig frá hverri stöð fyrir sig en þó aðeins ef hver þraut er leyst. Á leiðinni að takmarkinu hittir fólk einnig aðrar kynjaverur af ýmsu tagi og lærir jafnframt aðeins um hvern stað fyrir sig. Þetta er frábær leið til að kynnast sögunni, sjá fagra náttúru og hafa gaman af öllu saman í leiðinni. Ég myndi giska á að það geti tekið fimm til sex tíma að klára leikinn allan.“

Hægt verður að kynna sér sögu og menningu í Fljótsdal á einkar skemmtilegan hátt í ratleik sem fer fram um helgina. Mynd Austurland.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.