Leiðir Eskfirðinga liggja saman í Spæjarahundinum

Guðjón Ingi Eiríksson frá Eskifirði spreytir sig á skáldskap í nýrri bók um Spæjarahundinum. Teiknari bókarinnar er líka ættaður að austan og söguþráðinn má hæglega teygja inn á svæðið.

„Ég hef ekki verið mikið skáld, en þegar maður hefur kennt í 37 ár þá fæðast ýmsar hugmyndir. Mig langaði til að skrifa bók sem krakkar á aldrinum 6-12 ára hefðu gaman af,“ segir Guðjón Ingi.

Hann er þekktur sem maðurinn á bakvið Bókaútgáfuna Hóla, sem gefið hefur út fjölda bóka sem tengjast Austurlandi og stendur meðal annars að baki Hérasprettum – gamansögum af Héraði. Guðjón hefur sjálfur safnað gamansögum og gefið út, auk þess að skrifa spurninga- og sögubækur, en hér spreytir hann sig á skáldskapnum.

Spæjarahundurinn aðstoðar lögregluna við að leysa mál og koma bófum í tukthúsið. Nú er hann staddur í Bjartabæ, sem eins og Guðjón bendir á, er staðsettur nokkuð norðarlega á Austfjörðum þar sem eru óprúttnir aðilar sem ætla sér heimsyfirráð. „Við getum sagt að þetta gæti verið Vopnafjörður. Maður hugsar alltaf um þessa staði þar sem maður þekkir til. Þetta er lítill staður þar sem eitt og annað þrífst, bæði gott og glæpir.“

Fjölskylda Guðjón aðstoðaði hann í ferlinu. „Erna Ýr, dóttir mín, gaukaði ýmsum hugmyndum að mér. Síðan á bróðir minn níu ára gamlar tvíburadætur, sem voru tilraunadýr sögunnar. Þær gáfu mér ýmsar athugasemdir sem ég tók til greina og létti meðal annars textann í kjölfarið.“

Bókin er brotin um með letri sem sérstaklega hentar lesblindum og hefur fengið meðmæli frá Félagi lesblindra. „Ég hef kennt þó nokkuð að börnum sem eiga erfitt með það letur sem vanalega er notað,“ útskýrir Guðjón Ingi.

Myndirnar í bókinni teiknar Halldór Baldursson, sem líka er ættaður frá Eskfirði. „Halldór er okkar fremsti skopmyndateiknari. Afi hans, Ragnar Þorsteinsson, var lengi kennari á Eskfirði og gerði meðal annars sviðsmyndir fyrir leikfélagið, sem var þá mjög virkt.“

Ragnar náði hins vegar ekki að kenna Guðjóni. „Nei, hann var hættur þá, en hann kenndi mömmu!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.