Leiddi kanadískur vísindaleiðangur til fjölgunar fæðinga á Reyðarfirði?

Í ár eru fjörtíu ár liðin frá því að alþjóðlegur jarðfræðileiðangur boraði fyrir slysni niður á heitavatnsæð í Reyðarfirði. Borunin er heimamönnum minnisstæð fyrir ýmissa hluta sakir.

Leiðangurinn var upphaflega gerður út til að safna sýnum til að kanna hafbotn þann færa mætti sönnur fyrir landrekskenningunni. Reynt hafði verið að bora úr skipum en það var dýrt og hagstæðara talið að bora á eyjum.

„Landrekskenningin var nokkuð sem ekki allir trúðu, dálítið eins og hlýnun jarðar í dag,“ segir Marcos Zentilli sem þá var ungur prófessor í jarðfræði við Dalhousie háskólann í Halifax og einn leiðangursmanna.

Mokaði upp holuna fyrir gestinn

Í samtali við kanadíska ríkisútvarpið rifjar Zentelli upp leiðangurinn 1978 en hann heimsótti Reyðarfjörð og leitaði holunnar. Við það gekk hann fram á Ásmund Svavarsson, frá Áreyjum, sem var að gera við girðingar en holan er í landi Áreyja.

Zentelli segir svo frá að Ásmundi hafi þótt undarlegt að sjá ferðamann á vappi og spurt hvort hann vantaði hjálp. Zentelli hafi útskýrt erindi sitt og Ásmundur boðist til að grafa upp borholuna sem þakin hafi verið möl. Það hafi tekið drjúgan tíma en Ásmundur sagt það sjálfsagt því afurðir holunnar skipti miklu máli.

Boraðir voru 15-20 metrar á dag þar til borinn sat fastur á rúmlega 1,9 km dýpi. „Þeir sem réðu ferðinni töldu að við værum komnir með þau gögn sem við gætum vænst og þá var ákveðið að hætta,“ rifjar Zentelli upp.

En þegar hætt var að bora byrjaði heitt vatn að vella upp úr holunni, öllum að óvörum því fram að þessu var Reyðarfjörður talinn kalt svæði. „Efnahagslega skiptir Íslendinga miklu máli að finna vatn. Það er eins og fyrir aðrar þjóðir að finna olíu nema vantið er hreinna,“ er haft eftir Jóhanni Helgasyni, jarðfræðingi hjá Landmælingum sem fylgdi leiðangrinum.

Heiti potturinn á Reyðarfirði

Reyðfirðingar voru fljótir að hagnýta sér jarðhitann. Þeir komust yfir mikinn pott úr mjólkurbúi í nágrenninu og leiddu vatnið í hann. Heiti potturinn rúmaði rúmlega 10 manns og varð vinsæll samkomustaður.

„Sagan er að nokkur börn hafi orðið til þar. Ég bjó ekki hér sjálfur á þessum tíma en potturinn er sagður hafa leitt til þess að mörg börn fæddust hér á þessum tíma,“ hefur kanadíska ríkisútvarpið eftir Samúel Sigurðssyni, stöðvarstjóra Olís á Reyðarfirði.

Upplýsingar úr boruninni á Reyðarfirði urðu til þess að haldið var áfram að leita að heitu vatni á svæðinu sem fannst á Eskifirði og hefur verið nýtt.

Reyðarfjarðarborkjarninn er vel þekktur í íslenskri jarðfræðisögu. Hann var upphaflega sendur til Halifax en frá árinu 2017 hefur hann verið geymdur í jarðfræðisetrinu á Breiðdalsvík.

Ásmundur sýnir Zentelli borholuna. Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar