Orkumálinn 2024

Launafl styrkir vatnsverkefni kirkjunnar

Launafl í Fjarðabyggð hefur gefið Hjálparstofnun kirkjunnar fé til kaupa á tveimur vatnsbrunnum. Magnús H. Helgason, framkvæmdastjóri Launafls og Ágúst Sæmundsson, rafvirkjameistari, afhentu kirkjunni á Reyðarfirði ávísun að andvirði 260 þúsund króna rétt fyrir helgi. Þá stendur til að Launafl, Alcoa og Vélsmiðja Hjalta styrki Verkmenntaskólann í Neskaupstað um tólf milljónir króna samtals til tækjakaupa.

vefur_launafl.jpg

Magnús segir Launafl einnig reyna styrkja nærsamfélagið eftir föngum. Fyrirtækið gaf m.a. Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 350 þúsund krónur nýlega og hefur einnig lagt fé til verkefna í skólum og hjá íþróttahreyfingunni í Fjarðabyggð. ,,Ásamt Alcoa Fjarðaáli og Vélsmiðju Hjalta ætlum við svo að styrkja Verkmenntaskólann í Neskaupstað um tólf milljónir króna til tækjakaupa. Hver aðili leggur fram fjórar milljónir og styrkurinn verður væntanlega afhentur á næstu vikum,“ segir Magnús.

Um hundrað manns starfa nú hjá Launafli og segir Magnús verkefnastöðuna ágæta, svo fremi að Alcoa Fjarðaál dragi ekki mikið saman hjá sér. ,,Auðvitað verður einhver minnkun hjá þeim því menn reyna að draga úr yfirtíð. Svo er verksmiðjan farin að rúlla og komin meiri festa á hlutina og þá dregur aðeins saman. Menn hafa fengið gríðarlega nætur- og helgavinnu fram til þessa, en það breytist þegar fram í sækir. Við reiknum með að um áttatíu manns verði hjá okkur í vinnu þegar líður á nýtt ár. Við munum halda sjó þrátt fyrir erfitt ástand, nema eitthvað óvænt komi upp á hjá okkur.“ 

Vatnsverkefni kirkjunnar, sem Launafl styrkir nú, eru í Malaví og Úganda. Einn brunnur kostar rúmlega 120 þúsund krónur og hafa margir slíkir verið byggðir fyrir íslenska peninga. Einn brunnur getur séð fimm hundruð manns fyrir hreinu vatni í tugi ára. Hólmgrímur Elís Bragason, sóknarprestur á Reyðarfirði, segir slíkan brunn geta gjörbreytt ástandi í heilu þorpi, bætt heilsu íbúa og minnkað ungbarnadauða. ,,Fólk sem aðeins hefur aðgang að spilltu vatni eins og víða er á þessum slóðum, er stöðugt með niðurgang og veikt og börn deyja unnvörpum vegna lélegs vatns, sem ber með sér malaríu, kóleru og aðra óáran. Hjálparstofnun kirkjunnar hefur einbeitt sér að vatnsverkefninu undanfarin ár og það gengið mjög vel,“ segir Hólmgrímur.

Hjálparstarfsmenn byrja á að athuga hvort þörf sé á brunni eða skóla á viðkomandi svæði og oftast er það brunnurinn sem er meira aðkallandi. Kosið er í vatnsráð í viðkomandi þorpi og heimamenn grafa sjálfir brunninn og gera það sem gera þarf. Brunnféið fer í kaup á dælu, steypu umhverfis dæluna til að varna mengun og girðingu utan um brunninn til að halda skepnum frá. Vatnsráðið sér svo um brunninn og umhirðu hans í framhaldinu.

vatnsbrunnur_hjlparstarf.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.