„Láttu þér ekki detta til hugar að þú getir selt Norðfirðingum kaffi“

Sigríður Þórbjörg Vilhjálmsdóttir fékk ekki beint hvatningu frá sveitunum sínum áður en hún opnaði kaffihús í Neskaupstað fyrir rúmum 20 árum. Þeir tóku hins vegar þjónustu hennar fagnandi.

„Ég var spurð hvort ég gæti ekki hellt upp á kaffi heima hjá mér og sagt ég skyldi ekki láta mér detta það til hugar að ég gæti selt Norðfirðingum kaffi,“ segir Sigríður Þórbjörg Vilhjálmsdóttir, eða Sigga í Nesbæ eins og Norðfirðingar þekkja hana, í þættinum Að Austan á sjónvarpsstöðinni N4.

Þrátt fyrir þessar mótbárur opnaði Sigga kaffihúsið Nesbæ þann 1. maí 1998 og hefur staðið vaktina þar síðan. „Sem betur fer hefur viðhorfið breyst. Ég er mjög heppin með Norðfirðinga og nærsveitunga, þeir eru duglegir að koma og umferðin jókst enn þegar göngin opnuðu. Fólk er duglegt að koma til að setjast niður með blöðin og spjalla. Fólk á að láta sér líða vel.“

Sigga segir skipta máli að nota gott hráefnið í kaffið en hún malar í hvern bolla. Með kaffi er síðan hægt að fá kökur sem hún hefur bakað.

Í Nesbæ má einnig kaupa blóm, íslenskan lopa, garn, lopapeysur prjónaðar af bróður hennar og kort eftir dóttur hennar, sem er að fjármagna háskólanám sitt. Málverk eftir dótturina og móður Siggu prýða síðan veggi kaffihússins.

„Ég reyni að byggja kaffihúsið út frá sjálfri mér og því fólki sem vinnur hjá mér, Ég vil hafa það þannig að fólk sé að koma í kaffi, þótt það sé ekki beint að koma í kaffi til mín,“ segir Sigríður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.