„Landpóstarnir voru hetjurnar“

Göngugarpurinn Einar Skúlason ætlar í næstu viku að ganga og skrásetja gamlar þjóðleiðir um Austfirði. Veður og vindar hreyfi við leiðunum og því sé mikilvægt að varðveita þær. Einar fer meðal annars gamlar póstleiðir og býðst til að taka með sér bréf.

„Ég hef heillaður af gömlum þjóðleiðum síðan ég man eftir. Ég fór þá fyrstu, Leggjarbrjót milli Þingvalla og Hvalfjarðar, 14 ára með hundinn.

Það er eitthvað við að ganga í fótspor liðinna tíma. Hvað var fólk að hugsa, hvernig leið fólki? Þessi tenging milli manns og náttúrunna kryddar gönguna,“ segir Einar í samtali við Austurfrétt.

Hann leggur af stað á mánudag frá Höfn í Hornafirði og byrjar á að ganga yfir Almannaskarð áður en hann leggur til atlögu við Lónsheiði. Alls ráðgerir hann að ganga um 200 km austur til Borgarfjarðar og vera um viku á leiðinni en lengd göngunnar ræðst líka á veðurfari.

Minjar sem ber að varðveita

Þjóðleiðirnar voru samgöngukerfi landsins á fyrri tíð þar sem yfirleitt var farin stysta leiðin milli byggðarlaga, oft um skörð, heiðar eða annað fjallendi. Sumar eru enn skýrar en aðrar hafa látið á sjá.

„Þær eru sums staðar að hverfa, náttúruna sér um að jafna þær út. Með að fara um þær og skrá þær með GPS höldum við þær. Þetta eru fornminjar sem ber að varðveita,“ segir Einar. Hann stendur að baki Wapp gönguleiðasafninu en leiðirnar verða færðar inn í þann gagnabanka.

Heiðrar minningu landpóstanna

Margar leiðirnar eru einnig fornar póstleiðir, en Einar þræddi einnig gamlar póstleiðir frá Reykjavík til Ísafjarðar haustið 2016. „Landpóstarnir voru hetjurnar sem fóru af stað í alls konar veður.Þeir voru mest á hestbaki en víða fótgangandi framan af, einkum ef það var ekki mikill póstur.

Það er gaman að heiðra minningu þeirra því vinna þeirra var ekkert grín. Oft voru þetta verktakar, bændur að drýgja tekjurnar, sem reyndu að drífa ferðirnar af til að geta sinnt skyldum heima á búinu og fóru þess vegna stundum út í veður sem ekki var sniðugt að leggja af stað í.“

Einar verður einn á ferð með viðlegubúnað og annan göngubúnað en hægt verður að fylgjast með ferðum hans á netinu í gegnum búnað sem gefur upp staðsetningu hans á tíu mínútna fresti. Hann treystir einnig á góðvilja vegfarenda til að fá far milli göngustaða.

Býðst til að fara með bréf

Einar er í hópi þekktustu göngugarpa landsins og fer reglulega um Austfirði. Í sumar gekk hann bæði um Lónsöræfi og Jökuldalsheiði. „Ég fékk frá Eyjabökkum niður í Lón og svo fór ég um ferð um Jökuldalsheiði þar sem Páll Pálsson frá Aðalbóli var með okkur hluta ferðarinnar, sem var mjög gaman. Síðan er alltaf gaman að koma á Víknaslóðir. Annars hef ég aldrei gengið að ráði innan Fjarðabyggðar þannig ég hlakka til þess í ferðinni.“

Og til að halda uppi minningu landpóstanna býðst Einar til að taka með sér bréf til afhendingar á leiðinni. Þeim þarf að koma á veitingastaðinn Ottó á Höfn fyrir mánudag og ekki má brjóta lög um póstþjónustu, sem þýðir að Einar þarf annað hvort að taka bréfin fyrir ekkert eða „óhóflegt gjald“.

„Það er mjög persónulegt að fá bréf svona. Ímyndaðu þér að fá ástarbréf eða vinarkveðju sem einhver hefur gengið með yfir heilan landshluta. Ég tek ekki bögglapóst, ég myndi kannski gera það ef ég hefði hest.“

Áætlun Einars gerir ráð fyrir að fara eftirfarandi fjallaleiðir:

- Almannaskarð frá Hornafirði og í Lón og Lónsheiði í Álftafjörð
- Um Melrakkafjall á milli Álftafjarðar og Hamarsfjarðar
- Yfir Hálsa úr Hamarsfirði í Berufjörð (eða um Veturhúsaskarð ef veður verður hagstætt)
- Um Berufjarðarskarð frá Berufirði í Breiðdal
- Yfir Reindalsheiði úr Breiðdal í Fáskrúðsfjörð
- Um Stuðlaskarð frá Fáskrúðsfirði í Reyðarfjörð
- Yfir Eskifjarðarheiði og Fönn frá Eskifirði á Mjóafjarðarheiði
- Um Gagnheiði frá Mjóafirði í Seyðisfjörð
- Yfir Hjálmárdalsheiði frá Seyðisfirði í Loðmundarfjörð
- Um Kækjuskörð úr Loðmundarfirði í Borgarfjörð

Hægt er að fylgjast með ferðum Einars í rauntíma á landakorti á vefsíðunni: http://wapp.is/postleidir-og-alfaraleidir-a-austfjordum/
Einnig er hægt að hvetja hann áfram á Facebook síðunni: https://www.facebook.com/postleidin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar