Lærðu um hurðina frá Valþjófsstað

Nemendur á miðstigi í grunnskólum Múlaþings hafa að undanförnu rýnt í myndmál hurðarinnar frá Valþjófsstað í Fljótsdal, velt fyrir sér uppruna hennar og skapað sín eigin listaverk út frá henni.

Minjasafn Austurlands stóð fyrir verkefninu til að fræða nemendur um hurðina og tengsl hennar við fjórðunginn samhliða barnamenningarhátíðinni BRAS. Hurðin er einn af lykilgripum grunnsýningar Þjóðminjasafnsins.

„Okkur langaði að vekja athygli nemenda á þessum merkilega grip og gera það í gegnum einhvers konar sköpun“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafn Austurlands.

Safnið tók saman fræðsluefni um hurðina fyrir kennara auk þess sem teiknararnir Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttur leiðbeindu nemendunum. „Þær tóku tæpa viku í að heimsækja skólana með upprúllaða mynd af hurðinni í fullri stærð undir hendinni,“ segir Elsa.

Hurðin, sem er frá því um 1200, var áður fyrir kirkjudyrunum á Valþjófsstað, en þar er eftirmynd hennar í dag. Í henni er útskurður sem segir sögu riddara sem bjargar ljóni úr klóm dreka.

Meðal þess sem Elín Elísabet og Rán gerðu var að segja þessa sögu skref fyrir skref og teikna hana jafn óðum upp í skólastofunni. Krakkarnir fengu síðan teiknimyndasöguvinnublað til að teikna sína eigin myndasögu innblásna af persónum og atburðarrás hurðarinnar og kynntu hana að lokum fyrir öðrum í stofunni.

„Okkur fannst almennt krakkarnir afskaplega jákvæðir og áhugasamir um sögu Valþjófsstaðahurðarinnar og efni myndasögunnar. Þau voru almennt frekar fljót og ófeimin að taka til við að teikna og hugmyndaflugið lét ekki standa á sér,“ segja Elín og Rán.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.