„Kyrrstaða er ekki í boði“

„Ferðin er stórt skref í átt að æðsta markmiði fjölskyldunnar, sem er að troðfylla lífið af upplifunum, gæðastundum og samveru,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir, sem er á leið með alla fjölskylduna til Spánar þar sem hún ætlar að vera með börnin í svokallaðri heimakennslu, eða „world- eða wildschooling“.


Ágústa vatt kvæði sínu í kross á síðasta ári þegar hún hóf nám í markþjálfun eftir að hafa rekið hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifð í áraraðir.

Ágústa er gift Guðlaugi Birgissyni. „Í byrjun síðasta árs, ólétt að okkar fimmta barni, uppgötvaði ég að þær hugmyndir sem ég hafði alltaf haft um fjölskyldulífið voru aðeins draumar í fjarska, umluktir hindrunum og afsökunum fyrir því að taka ekki nauðsynleg skref í átt að þeim,“ segir Ágústa um upphaf hugarfarsbreytingar sem hefur átt sér stað hjá henni síðustu misseri.

Ágústa og Guðlaugur ráku hvort sitt fyrirtækið sem og sjö manna heimili. „Ómeðvitað notuðum við orðið „bíddu“ og „seinna“ allt of oft við börnin en sem betur fer gerðust atburðir sem urðu til þess að ég áttaði mig á því hve hratt tíminn líður, börnin er börn í stuttan tíma, lífið er núna og eins gott að ná því besta úr því.

Við Guðlaugur tókum því sameiginlega ákvörðun að einbeita okkur frekar að einu fyrirtæki í einu og skapa lífsstíl sem hentar okkur öllum betur. Ég ákvað því að staldra við og hugsa allt sem snýr að mér, mínum frama og fjölskyldunni upp á nýtt og gera breytingar. Markþjálfari hjálpaði mér mikið í þessu ferli, ég féll algjörlega fyrir faginu og skellti mér í háskólanám í því.“

Fagið snýr að því að ná markmiðum
Ágústa hefur tröllatrú á markþjálfun. „Hún snýst að mestu leiti um að finna og ná markmiðum, hvort sem um er að ræða persónuleg markmið, markmið innan fyrirtækja eða eins og í okkar tilfelli: fjölskyldunnar. Ég byrjaði á því að spyrja: „Hvað vil ég?“ samhliða: „Hvað vill/þarf fjölskyldan?“

Þegar svarið var komið, var markmiðið þá að hanna leiðina að því, sem auðvitað kostaði bæði mikla vinnu og staðfestu, til þess að missa ekki sjónar á draumunum og halda áfram í átt að þeim þó á móti blési.“

Ágústa segir það hafa tekið á að byrja í náminu. „Það var mikið pússl að komast í loturnar til Reykjavíkur, koma börnunum fyrir, ákveða greiðslufyrirkomulag og fleira. Stærsta hindrunin var þó kvíði í mér, hræðsla við að leggja of mikið á mig og fjölskylduna og mistakast en þetta tókst með ákveðni, skipulagi, samheldni, samvinnu og stuðningi frá fjölskyldu og vinum.“

Áhugaverðar kennsluaðferðir
Í kjölfar hugarfarsbreytinga byrjaði Ágústa að skipuleggja langþráða Spánarferð sem hún segir að vonandi verði aðeins sú fyrsta af flökkulífi fjölskyldunnar.

„Til að komast í þessa ferð höfum við þurft að taka mörg lítil skref, til dæmis að einfalda allt í lífinu, minnka útgjöld, gera áætlanir, ákveða staðsetningu, finna samastað og flug, ákveða ferðatilhögun, fá samþykki skóla barnanna, skipuleggja allt í sambandi við störfin okkar og skyldur hér heima og fleira.“

Ágústa segir fyrstu viðbrögð fólks sem þau segja frá fyrirætlunum vera þau sömu. „En hvað með skóla barnanna? Það er mér auðvitað efst í huga og er í raun ein af stærstu ástæðunum fyrir ferðinni en mig langar að kynna börnin fyrir ólíkum kennsluaðferðum.“

Ágústa hefur verið að kynna sér fjölbreytt form heimakennslu. „Sú aðferð sem heillar okkur mest snýr að því að kenna börnum í sínu náttúrulega umhverfi þar sem þeim líður best, með lífið og námið samtengt. Það er ótrúlega áhugavert og spennandi að kynna sér þetta. Við erum komin í samband við fjölskyldur á Spáni sem lifa þessum lífsstíl og munum við hitta þau til að kynna okkur þeirra fyrirkomulag, kynnast nýrri menningu og lífi, en auk þess bíður heimakennslusamfélagið á svæðinu upp á námskeið, ferðir og fleira sem við munum líka nýta okkur til þess að börnin fái sem allra mest út úr þessu. Hvað varðar hefðbundna íslenska námsefnið þá erum við í samstarfi við kennara barnanna okkar og fáum bæði bækur og viðmið með okkur þannig að við höldum okkur á áætlun.“

Heimakennsla fer ört vaxandi
Ágústa segir heimakennslu ört vaxandi námsform. „Fjölskyldur af öllum toga eru farnar að velja heimakennslu til að eiga stærri þátt í lífi barna sinna en það er mín meginástæða og -ástríða. Þar sem heimakennsla er ekki leyfileg fer fólkið þá leið að vinna með skólum eða á ferðalögum með formi sem kallast „world- eða wildschooling“.

Ísland og nærumhverfi okkar er paradís fyrir þá sem aðhyllast og virða „villtu“ börnin sem læra á og af náttúrunni. Nú þegar er ég komin í samskipti við erlendar fjölskyldur á leið til landsins sem ég mun vera innan handar í ferðaskipulagi og taka á móti þeim hingað í okkar umhverfi þegar við erum ekki sjálf á flakki. Þannig að þetta er líka orðin eins konar fjölskylduferðaþjónusta, alveg frá því að aðstoða fólk í að stíga fyrsta skrefið og setja sér markmið, þar til manneskjan er farin að lifa draumana.“

„What to do in“
Að beiðni og áhuga Vigdísar, elstu dóttur Ágústu, fór fjölskyldan á flakk um heimahagana á síðasta ári þar sem ný tækifæri kviknuðu. „Við tókum myndir og sögðum frá ævintýrum okkar á Instagram. Þetta vakti athygli og vatt upp á sig og nú eru komnar Facebook-, Snapchat- og bloggsíður undir nafninu „What to do in“ – þar sem ætlunin er að tengja saman ferðalög okkar um lífið, uppeldi, nám, starf, sköpun og fleira sem ég hef mestan áhuga á og leyfa fólki að fylgjast með.

Ég vona auðvitað að fjölskyldan muni hafa jafn mikinn áhuga þannig að þetta verði áfram fjölskylduverkefni en auk þess er Arfleifð að falla inn í þessar hugmyndir en staðsetning okkar á Spáni er ekki síður valin út frá því að það er örstutt í tösku- og fylgihlutaverksmiðjur sem mig langar að kynna mér enn betur. Ég trúi að lífið leiði okkur þangað sem við viljum og þurfum að fara. Þetta er ferðalag og kyrrstaða er bara það eina sem ekki er í boði.“

Snapchat-aðgangur Ágústu er: whattodoin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar