KYNNING: „Tryggingar snúast um að veita hugarró“

Arnar Jón Óskarsson tók við starfi útibússtjóra Sjóvár á Egilsstöðum í byrjun mars. Hann hefur nær alla tíð verið búsettur á Héraði og þekkir því þjónustusvæðið vel. Arnar segist hafa gaman af mannlega þættinum í tryggingunum en utan vinnunnar þjálfar hann fangbrögð. Það áhugamál hefur dregið hann víða um heim.

„Mannlegi þátturinn er það sem heillar mig mest við starfið. Að vera til staðar og hjálpa fólki þegar á reynir og vita að maður hafi veitt góða ráðgjöf til að geta bætt fólkinu tjónið ef það lendir í einhverju. Tryggingar snúast um að veita fólki þá hugarró sem felst í að vita að ef eitthvað kemur fyrir þá ertu tryggður.“

Arnar Jón hóf störf í útibúinu árið 2016 en hafði áður unnið hjá fjölskyldufyrirtækinu Bólholti. Hann er útskrifaður úr náttúru- og auðlindafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Arnar Jón er einn fjögurra starfsmanna í útibúi Sjóvár að Miðvangi 1 á Egilsstöðum. Þjónustusvæðið er stórt, frá Bakkafirði í norðri að Hala í Suðursveit í suðri. Arnar Jón segir samskiptin við viðskiptavinina skipta miklu máli. „Við ætlum að vera dugleg að heimsækja fyrirtækin okkar, það er gaman að ferðast um og hitta fólk. Við viljum fara vel yfir stöðuna, tryggja að allir séu vel upplýstir um þær tryggingar sem eru í boði og fái góða ráðgjöf út frá umfangi og eðli starfseminnar,“ segir hann.

„Við leggjum sömuleiðis ríka áherslu á forvarnir og höfum verið að vinna með fyrirtækjum að því hvernig megi lágmarka slysahættu í ólíkum atvinnurekstri. Þetta er líka eitthvað sem við ætlum okkur að gera enn meira af.“

Frá stórútgerðum til trillukarla

Rétt eins og þjónustusvæðið er samsetning viðskiptavinanna fjölbreytt. „Við erum með allt frá unglingum sem tryggja vespurnar sínar, yfir í stærstu vinnustaðina. Hjá okkur eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki, trillukarlar og allt þar á milli.“

Ferðaþjónustan er sú grein sem hefur vaxið hvað hraðast á svæðinu síðustu misseri og fer viðskiptavinum úr þeim geira því fjölgandi hjá Sjóvá. „Við gerum til dæmis mikið af því að senda út staðfestingar á tryggingum áður en erlendar ferðaskrifstofur staðfesta viðskipti og koma með sína hópa. Þetta snýst um að ef þínir viðskiptavinir lenda í einhverju fái þeir það bætt. Ég veit til dæmis ekki hvort allir viti af því en ýmsar bókunarsíður, svo sem Booking.com, gera kröfur á sína viðsemjendur að þeir útvegi þau gistipláss sem þeir hafa selt, jafnvel þótt þeir lendi í bruna og altjóni. Þar geta tryggingafélögin hjálpað.“

Skiptir máli að fara reglulega yfir tryggingaverndina

Arnar Jón segir að einnig sé mikið lagt upp úr því að þeir einstaklingar sem eru í viðskiptum við Sjóvá séu með tryggingar í samræmi við þarfir þeirra. Það fari að miklu leyti eftir aðstæðum hvers og eins hversu mikla tryggingavernd þarf að hafa og því taki þau hjá Sjóvá reglulega stöðuna með viðskiptavinum sínum. „Ef fólk er til dæmis að stækka eða minnka við sig, hefja sambúð, eignast börn eða aðrar breytingar að verða á högum þess, skiptir máli að yfirfara tryggingaverndina og breyta í samræmi við breyttar aðstæður. Við leggjum því mikla áherslu á að vera í góðum samskiptum við viðskiptavini okkar og hvetjum alla til að hafa endilega samband við okkur ef þeir hafa einhverjar spurningar um tryggingamálin,“ segir Arnar Jón.

„Það er líka rétt að benda á að við erum með þjónustu- og umboðsaðila um allt þjónustusvæði okkar sem geta einnig veitt góðar upplýsingar um þá þjónustu sem við bjóðum upp á.“

Í fangbrögðum á Grænlandi

Utan vinnunnar hefur Arnar Jón sérstakan áhuga á bardagaíþróttum en hann er meðal stofnenda Fangbragðafélagsins Gleipnis þar sem hann hefur þjálfað brasilískt jiu-jitsu og júdó. „Ég hugsa að bardagamyndir hafi heillað mig þegar ég var yngri. Fangbrögðunum kynntist í netgrúski fyrir þó nokkrum árum. Mér fannst áhugavert hvernig minni menn yfirbuguðu þá sem voru miklu stærri. Á sama tíma fann ég að fleiri höfðu áhuga, til dæmis var Mjölnir að hefja starfsemi. Ég vann eystra og safnaði mér fyrir því að geta farið og búið fyrir sunnan til að æfa.“

Arnar Jón æfði fangbragðaíþróttir meðan hann stundaði nám á Akureyri en áhuginn hefur fært hann víðar um heiminn. „Það eru heilu ferðaskrifstofurnar sem skipuleggja æfingaferðir. Ég var einu sinni á Grænlandi í viku, sá sem lengst kom að var frá Ástralíu. Við fengum sauðnaut og hreindýr í hvert mál. Mér fannst sauðnautið mjög gott, það er akkúrat mitt á milli hreindýrs og nauts,“ segir Arnar Jón sem einnig hefur mikinn áhuga á skotveiði.

Arnar Jón er giftur Ingiborgu Jóhönnu Kjerúlf og saman eiga þau eitt barn. Fjölskyldan hefur gaman af að ganga á fjöll og hefur sett stefnuna á Perlur Fljótsdalshéraðs. „Ætli við séum ekki búin að ganga á sex þeirra. Það eru margir fallegir staðir í kring sem maður keyrir framhjá nema maður eigi erindi þangað.“

Föstudaginn 8. júní kl.10:00-14:00 verður opið hús hjá útibúi Sjóvár á Egilsstöðum. Viðskiptavinir eru boðnir sérstaklega velkomnir þá að þiggja veitingar og glaðning.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.