Orkumálinn 2024

Kvikmyndasafn Íslands vill fá hluta sýningavélar Valhallar til varðveislu

Í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði er gömul sýningavél sem var notuð til kvikmyndasýninga. Hún var notuð frá því kvikmyndasýningar hófust í Valhöll. Nú hefur Kvikmyndasafn Íslands óskað eftir að fá hluta vélarinnar til varðveislu.

 

„Þeir eru semsagt á höttunum eftir hluta vélarinnar, ljósakassanum. Kvikmyndasafnið á samskonar vél en vantar þennan kassa til að geta sýnt vélina sem eina heild,“ segir Kristinn Þór Jónason sem í forsvari fyrir félagssamtökin Vini Valhallar sem sjá um Valhöll þessa dagana sem húsverðir.

Það að kvikmyndasafnið hafi sóst eftir því að fá hluta vélarinnar sem er í Valhöll gefur til kynna að ekki eru til margar slíkar á landinu. „Nei það er einmitt málið. Það er ekki margar svona til. Þessi vél er auðvitað hundgömul. Þetta er klassísk vel þar sem myndefnið er keyrt á sér spólu og svo hljóðið keyrt samhliða á annarri spólu ef svo má segja,“ segir Kristinn Þór.

„Hann Vinny í Studíó Síló á Stöðvafirði fær síðan hluta hljóðkerfisins sem fylgir vélinni og ætlar að lappa upp það,“ bætir Kristinn við. En það er hljóðmagnari sem hann mun gera upp.

Menningar- og nýsköpunarnefnd hefur falið Ara Allansyni, forstöðumanni menningarstofu Fjarðabyggðar að kanna málið nánar hjá Kvikmyndasafni Íslands og íbúa og leggja tillögu að úrlausn fyrir nefndina.

„Við erum búin að stofna Kvikmyndasýningarfélag Austurlands sem sér um bíósýningar í húsinu. Við erum að fara að safna fyrir nýrri sýningarvél í húsið vonandi á næstunni til að geta sýnt nýjar myndir, vera með heimildamyndasýningar og fleira,“ segir Kristinn Þór að lokum.

 

Halldór Friðriksson fyrrum umsjónarmaður Valhallar með gömlu sýningavélinni. Myndin er aðsend. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.