„Kótilettur í raspi klikka ekki“

„Það leggst vel í mig vera komin í meirihluta og að taka við starfi formanns bæjarráðs, spennandi og krefjandi tímar framundan. Ég hlakka til að starfa með fjölbreyttum og sterkum hópi fólks sem er tilbúið að leggja mikið á sig fyrir samfélagið okkar,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, nýkjörinn formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


Eydís segist alltaf hafa haft áhuga á áhuga á félagsstörfum og sveitarstjórnarmálum. „Ég vil láta gott af mér leiða í okkar samfélagi og valdi því að fara þessa leið. Ég hef gott og traust bakland sem er forsenda þess að geta starfað á hinum pólitíska vettvangi. Ég hef setið í bæjarstjórn frá því 2010 og sem aðalmaður í bæjarráði frá 2013.“

Hver verða forgangsmál á nýhöfnu kjörtímabili? Jafnrétti og jöfnuður verður grundvöllur samstarfs Fjarðalistans og Framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð. Allar ákvarðanir verða teknar með hliðsjón af hagsmunum íbúa og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Málefni fjölskyldunnar verða í forgangi á þessu kjörtímabili en verkefnin eru mörg og fjölbreytileg, meðal annars að berjast fyrir leiðréttingu á verka- og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, þar hallar mikið á sveitarfélögin sem er ekki boðlegt.“

Fullt nafn: Eydís Ásbjörnsdóttir.

Aldur: Er að detta í 45 árin.

Starf: Bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og framhaldsskólakennari í VA.

Maki: Kristján Svavarsson.

Börn: Ásbjörn, Andrés og Pálmi. Einnig á ég stjúpbörnin Þórhildi og Svavar Kristján.

Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast? The Green Mile.

Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa? Stayin Alive með Bee Gees.

Hvað ætti ævisagan þín að heita? Eydís, sagan öll.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Kótilettur í raspi klikka ekki.

Hver er þinn helsti kostur? Vinnusöm og með sterka réttlætiskennd.

Hver er þinn helsti ókostur? Alltof mikið í símanum.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Egg, mjólk og rabarbarasulta.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Stórurð, það fátt betra en að ganga þangað á fallegum degi.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vöknuð kl. 6:30 og fjölskyldan græjar sig saman inn í daginn. Vinna og oft fundir seinnipartinn, kvöldin helguð fjölskyldunni svo held ég áfram í lestri gagna eftir að yngsti minn er farinn í háttinn.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagur, fjölskyldan oftast saman þá.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið! samveran með fjölskyldunni, veðrið og litirnir.

Hvað er best við Austurland? Fólkið og náttúran.

Hvað mætti helst bæta á Austurlandi? Samgöngur og heilbrigðismál þarf að bæta. Við þurfum á aukinni samstöðu að halda á Austurlandi og vinna saman af heilindum að þeim málum sem sátt er um.

Hvað er í töskunni þinni? Dagbók, pennar, kortaveski og gloss.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Svo margt og miklir öfgar. Nefni hártískuna þar sem hárið var stutt í hliðum og sítt að aftan, permanent og aflitaðar hettustrípur allsráðandi. Ekki má gleyma gallafrökkunum, legghlífunum, grifflunum og sjóðheitu ennisböndunum.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Þættirnir, The Big Bang Theory, klikka ekki.

Duldir hæfileikar? Er ennþá að leita.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ég og Pálmi sonur minn ætlum að vera dugleg í garðinum og mæta svo á sunnudaginn á Breiðdalsvík þar munu 17. júní hátíðarhöldin í Fjarðabyggð fara fram í ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.