Orkumálinn 2024

Konan á traktornum sækir um styrk til nefndarinnar á kerrunni

Tónlistarhópurinn Austuróp sýnir kammeróperuna Kornið á Egilsstöðum og Eskifirði um helgina. Um er að ræða nýlegt íslenskt verk sem segir frá raunum frumkvöðuls. Ýmislegt fleira er í boði á Austurlandi um helgina.

„Kammerópera er ópera í smækkuðu formi sem þarf hvorki heila sinfóníuhljómsveit né stóran kór. Við höfum þrjá hljóðfæraleikara og fjóra söngvara. Óperan sjálf er bara hálftími en í henni er samt ákveðin saga.

Hún fjallar um eitthvað sem allir sem standa í frumkvöðlastarfi eða atvinnuskapandi verkefnum, eins og menningarstarf er, þekkja vel sem er að sækja um styrk. Fyrir þá sem hafa séð myndir af hóp á gamalli Ferguson-dráttarvél er konan á traktornum að sækja um styrk til nefndarinnar á kerrunni,“ segir Hlín Pétursdóttur Behrens, stjórnandi hópsins.

Óperan er útskriftarverkefni frá Listháskóla Íslands árið 2018. Tónlistina samdi Birgitt Djupdal en Ingunn Lára Kristjánsdóttir, leikari, gerði textann. „Við tengjum oft óperur við ítölsku en það sem hvað merkilegast við þessa er að hún er á íslensku. Ég sá óperuna þegar hún var flutt 2018 og leist strax vel á hana. Í hugum okkar er nútímatónlist oft óaðgengileg eða óskiljanleg en tónlist Kornsins er aðgengileg og söguþráðurinn léttur og skemmtilegur.

Mér fannst stutt ópera á íslensku vera við hæfi hér því bæði er langt síðan ópera hefur verið flutt á Austurlandi auk þess sem hún hentaði Austurópi sem verður ársgamalt í júní,“ segir Hlín.

Kornið verður frumsýnt í Egilsstaðakirkju á laugardag klukkan 20:00 og flutt aftur á Eskifirði á sunnudag klukkan 17:00.

Ráðstefna þjóðfræðinga og barsvar Siðmenntar

Í Valaskjálf á Egilsstöðum verður um helgina haldin landsbyggðaráðstefna íslenskra þjóðfræðinga. Reynt er nú að halda ráðstefnuna í þriðja sinn en henni var tvisvar frestað vegna Covid-faraldursins.

Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands og Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Egilsstöðum, eru meðal þeirra sem halda erindi. Þuríður Elísa rekur þróun minjaverndar en Unnur Birna fjallar um þróun fyrstu byggðar á Egilsstöðum. Af öðrum erindum ráðstefnunnar má nefna tilfinningar í dagbókum 19. aldar, kynbundið ofbeldi í íslenskum þjóðsögum, birtingarmynd álfa og dreka í tölvuleikjum og ímynd og sjálfsmynd íbúa ákveðinna byggðarlaga.

Í Neskaupstað fer fram Íslandsmót yngri flokka í blaki. Vegna sóttvarna er mótið ekki opið almenningi.

Lífsskoðunarfélagið Siðmennt stendur fyrir Barsvari á Aski á Egilsstöðum í kvöld og í Beituskúrnum í Neskaupstað annað kvöld. Spyrill er Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, sem samið hefur spurningar ásamt Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni en þemað er húmanismi, hamfarir, heimspeki og helgispjöll. Bingó Bogga verður sérstakur gestur í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.